Um 40 prósent auðlindarentunnar renna til þeirra sem hafa selt sig út úr greininni. Þetta fullyrðir Stefán B. Gunnlaugsson, doktor í Viðskiptafræði.

Stefán B. Gunnlaugsson hefur gert athugun á því hvernig auðlindarenta af sjávarútvegi dreifist til þeirra sem njóta hennar. Í grófum dráttum er niðurstaðan sú að fyrirtækin í greininni hafa fengið um 40 prósent hennar, ríkið fær um 20 prósent í gegnum skattlagningu og veiðigjöld, en afgangurinn, um 40 prósent, hafnar hjá þeim sem hafa selt sig út úr greininni.

„Þetta eru ónákvæm fræði, en frá 1997 til 2017 var skiptingin svona,“ segir Stefán, en tekur fram að rentan hafi verið mjög misjöfn eftir árum.

„Árið 2017 var til dæmis sáralítil renta. Hins vegar varð mjög mikil renta til á árunum 2009 til 2013, en á árunum 2016 til 2018 er ekkert svo mikil renta. Svo geri ég ráð fyrir að 2019 og 2020 fari rentan upp aftur.“

Varði doktorsritgerð

Stefán varði 17. febrúar síðastliðinn doktorsritgerð sína við Viðskiptadeild Háskóla Íslands þar sem viðfangsefnið er íslenskur sjávarútvegur, þar á meðal auðlindarentan og skipting hennar.

Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, nýorðinn doktor í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. MYND/Aðsend
Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, nýorðinn doktor í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. MYND/Aðsend

  • Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, nýorðinn doktor í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. MYND/Aðsend

Almennt hefur reynst erfitt að leggja mat á það hver auðlindarenta í sjávarútvegi hefur verið í raun. Stefán segir þó að þær þrjár aðferðir sem hann hefur notað við að meta rentuna hafi allar gefið svipaða niðurstöðu, og hún er nokkuð afgerandi.

„Fram til ársins 2008 var í raun engin renta búin til í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Stefán, og skýringin á því er sú að afli hafði minnkað jafnt og þétt.

Eftir árið 2008 fer þó flest að þróast á betri veg: „Afli fer að aukast, krónan hrynur sem hefur mikil áhrif, svo fer afli í sóknareiningu á þorski að aukast mikið á árunum þar á eftir. Einn hluti af aflaaukningunni er aukning á afla í uppsjávarfiski, og allt hefur þetta áhrif.“

Hægfara hagræðing

Við doktorsvörn Stefáns vöktu andmælendur athygli á því hve hagræðingin í greininni hafi gerst hægt hér á landi.

„Greinin hefur alltaf verið gagnrýnd hér fyrir að hagræða mjög hratt, en gögnin benda til þess að hún hafi verið frekar lin í því. En eðlilega var tregða í þessum fyrirtækjum og fólki úti á landi, að hagræða og hætta rekstri og leggja skipum. Menn hafa sjálfsagt verið að halda of lengi vonlausum rekstri áfram.

Á hinn bóginn er auðvelt að segja þetta eftir á. Aflinn var vissulega alltaf að minnka, en þú vissir ekkert á hverjum tímapunkti hvernig hann myndi þróast. Kannski héldu menn að þetta færi að aukast, og þá halda menn áfram rekstri.“

Stefán segir að í raun hafi íslenskur sjávarútvegur staðið sig mjög vel á þessum tíma „því þó aflinn hafi helmingast þá náði hann að halda í aflaverðmætið. Frá 1990 til 2008 helst raunaflaverðmætið nokkuð stöðugt þrátt fyrir mjög mikla minnkun í afla. Það er jákvætt.“

Ósanngirnin

Stefán segist þeirrar skoðunar að í raun sé eðlilegt að skattleggja sérstaklega þá sem fara út úr greininni.

„Já, þeir sem hafa farið út úr greininni hafa fengið mjög stóran hluta af rentunni. Mér finnst það ósanngjarnt að fyrirtækin í greininni, greinin sjálf, sé að standa undir öllum kostnaði eða skattlagningu af auðlindarentu, því þeir sem fara út úr greininni munu fá megnið af henni.“