Guðmundur Snorrason, endurskoðandi og einn eigenda PwC, segist ekki telja að reynsluleysi endurskoðenda af störfum fyrir alþjóðlega banka hafi leitt til vandamála á árunum fyrir hrun bankanna. Íslenskir endurskoðendur höfðu litla sem enga reynslu af endurskoðun reikninga alþjóðlegra banka, líkt og Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn voru, þar til þeir þrír komu fram á sjónarsviðið sem slíkir, á árunum 2004 og fram að falli þeirra 2008.

Sp. blm. Getur reynsluleysið ekki hafa skipt máli við vinnu endurskoðenda og hugsanlega leitt til óvandaðra vinnubragða í einhverjum tilvikum?

„Endurskoðendur, ekki síst þeir sem starfa undir merkjum eins og PwC, hafa aðgang að alþjóðlegri sérfræðiþekkingu hjá samstarfsfyrirtækjum innan PwC-netsins þegar þörf er á. Ég tel því ekki að reynsluleysi hafi valdið vandræðum. Styrkur þess að hafa aðgang að sérfræðiþekkingu á erlendri grundu þegar þörf er á er einmitt eitt af því sem gerir PwC að traustum og faglegum aðila.

En auðvitað urðu miklar og örar breytingar á viðskiptaumhverfinu, bæði hér á landi og erlendis, sem voru tengdar því að eignaverð hækkaði hratt, vextir voru lágir og aðgengi að lánsfé á erlendum mörkuðum var nánast ótæmandi. Þetta er að minnsta kosti það sem nefnt hefur verið af ýmsum málsmetandi mönnum, eftir á að hyggja, að hafi leitt til mikilla alþjóðlegra vandamála.

Ég hef hugsað mikið um þessa atburði og tel þessa skýringu nokkuð sannfærandi. Víða um lönd súpa menn nú seyðið af þessu, eins og við sjáum t.d. á Írlandi. Það er eðlilegt að endurskoðendur, eins og margar aðrar starfsstéttir, horfi yfir reynslu undanfarinna ára og breyti því sem þarf að breyta. Það er einmitt það sem endurskoðendur hafa verið að gera, þvert á það sem margir virðast halda. Ný lög um endurskoðendur, sem tóku gildi 1. janúar 2009, hafa verulegar breytingar í för með sér í starfsumhverfi endurskoðenda."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag.