Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er var innherjasvikamál Icelandair í fyrsta sinn sem reynir á 69. gr. d. í almennum hegningarlögum. Umrætt ákvæði kom inn í lögin í árslok 2009, eftir þrjár atrennur til samþykktar þeirra á þingi, en með lögunum voru heimildir til eignaupptöku rýmkaðar, meðal annars í kjölfar tilmæla FAFT um aðgerðir til varnar peningaþvætti.

Í téðri 69. gr. d. er kveðið á um að eignaupptaka megi „fara fram hjá þeim sem notið hefur ávinnings af broti“. Í greinargerð með frumvarpinu sagði um greinina að í flestum tilfellum væri upptöku beint gegn þeim „sem framið hefur brotið eða átt hlutdeild í því“. Ákvæðið gæti þó einnig gripið þriðja mann, fyrirtæki eða fleiri en tvo samtímis sem hafa staðið saman að afbroti. Rökin eru augljóslega sú að það sé siðferðislega rangt að einhver geti notið ávinnings af lögbroti annars og er ákvæðinu því ætlað að grípa slík tilvik.

Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að í leyfisbeiðni Kjartans Bergs hafi verið bent á að ekki hafi reynt á sambærilegt atriði í dómaframkvæmd. Því kynni niðurstaða í málinu að hafa almenna þýðingu. Á það féllst Hæstiréttur ekki og taldi önnur skilyrði ekki uppfyllt. Breytti engu um þá niðurstöðu að Kjartan Bergur hefði verið sýknaður af verknaðinum. Eftir stendur óhaggaður dómur Landsréttar um að njóti þriðji maður ávinnings af innherjasvikum annars, óháð því hvort hann viti að upplýsingarnar hafi verið fengnar með þeim hætti, gæti ágóðinn verið gerður upptækur. Aftur á móti liggur ekki fyrir hve langt sú keðja teygir sig.

„Ég hefði talið að það hefði verið full ástæða til að rökstyðja þetta frekar í ljósi þess að ekki hefur reynt á ákvæðið fyrr. Enn fremur þá gerði ákæruvaldið ekki kröfu um upptökuna kæmi til þess að skjólstæðingur minn yrði sýknaður. Það var lögð áhersla á þetta í áfrýjunarleyfisbeiðninni en Hæstiréttur taldi það ekki duga til að málið yrði flutt þar,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Kjartans Bergs fyrir Landsrétti.

Að hans sögn hefur mæliprikið sem rétturinn mátar leyfisbeiðnirnar við verið nokkuð strangt. „Að mínu viti hefur eilítið skort á rökstuðning í þessum ákvörðunum. Ef fallist er á beiðnina þarf lítið að rökstyðja en sé henni synjað hefur fylgt nokkuð staðlaður rökstuðningur. Það er fátt hættulegra en að afgreiða hluti með stöðluðum hætti því þá hættir manni til að pæla lítið í þeim.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .