Festi, sem rekur meðal annars Krónu-verslanirnar, vill opna tvær til fjórar bensínstöðvar á lóðum Krónunnar í Reykjavík og Kópavogi. Fyrir mánuði var beiðni um byggingu bensínstöðvar við Skógarlind í Kópavogi hafnað af skipulagsnefnd. Bæjarstjórn Kópavogs fær málið á sitt borð í byrjun nýs árs. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Festi hefur einnig sótt um að fá lóð undir bensíndælur á lóðum Krónunnar í Reykjavík. Í samtali við Fréttablaðið segir Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkur, stefnu borgarinnar vera þá að bensínstöðvum fjölgi ekki heldur fækki jafnvel. Hann segist ekki eiga von á að tekið verði vel í beiðnina frá Festi.

„Flestir held ég fallist á það að fjölgun bensínstöðva bætir ákaflega litlu við gæði borgarumhverfisins," segir Björn í samtali við Fréttablaðið. „Aðgengi að bensínstöðvum í Reykjavík er yfirdrifið og samkeppni hefur ekki sýnt sig til að breyta miklu um verðmyndun.“

Þvert á orð Samkeppniseftirlitsins

Fyrir rétt um mánuði síðan gaf Samkeppniseftirlitið út 300 blaðsíðna frummatsskýrslu , sem ber heitið „Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði“. Viðskiptablaðið fjallaði töluvert um skýrsluna en í henni er einmitt kallað eftir því að rannsakað verði hvort regluverk og stefna stjórnvalda hafi skaðleg áhrif á samkeppni á eldsneytismarkaðnum.

Í skipulagslögum og stefnu sveitarfélaga í skipulagsmálum er ekki tekið tilliti til samkeppnissjónarmiða og getur það haft neikvæð áhrif á eldsneytismarkaðinn að mati Samkeppniseftirlitsins. Sérstaklega er bent á að stefna Reykjavíkurborgar um að nýjar bensínstöðvar verði ekki reistar nema samsvarandi fjöldi slíkra stöðva verði lagður niður hafi falið í sér aðgangshindranir. Telur Samkeppniseftirlitið að þessi stefna „skaði samkeppni, þá sérstaklega í tilviki þess þegar nýir keppinautar fyrirhuga inngöngu á markaðinn í Reykjavík“.