Bandarískur tölvunarfræðingur og fjárfestir hefur stefnt íslenska snyrtivöruframleið - andanum Taramar ehf. sem og stofnanda og stærsta hluthafa félagsins. Maðurinn, Paul Michael Farmwald, telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna rangar upplýsingagjafar við fjárfestingu hans í félaginu en hann hefur lagt því til ríflega 1,5 milljónir bandaríkjadollara, andvirði ríflega 180 milljóna íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Taramar var stofnað árið 2010 en þar er á ferð sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á lífrænum húðvörum úr sjávarfangi og læknajurtum. Samkvæmt heimasíðu félagsins hafa vörur fyrirtækisins þá eiginleika „að draga úr sjáanlegum áhrifum öldrunar og eru fullkomlega hreinar og öruggar“. Stofnandi fyrirtækisins og stærsti hluthafi er dr. Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiski- og fiskavistfræði við Háskóla Íslands.

Áðurnefndur Farmwald á aftur á móti nokkra sögu úr Kísildalnum, þá sérstaklega á síðasta áratug síðustu aldar. Kom hann meðal annars að stofnun fyrirtækja á borð við Rambus, Chromatic Research, Matrix Semiconductor og Epigram en síðasta félagið var síðar keypt af Broadcom. Undanfarin ár hefur hann lagt fé í hin ýmsu félög, þar á meðal Taramar.

Samskipti aðila málsins hófust á haustmánuðum 2017 en þá átti eiginkona Farmwalds leið í gegnum Keflavíkurflugvöll. Aðilar málsins eru sammála um að þar hafi hún keypt vöru sem framleidd hafði verið af Taramar og í kjölfarið sett sig í samband við stofnanda þess með það að marki að fjárfesta í því. Einnig er óumdeilt að af fjárfestingunni hafi orðið en alls skráði hann sig fyrir ríflega 80 þúsund hlutum á genginu 18,60 Bandaríkjadalir á hlut. Aftur á móti greinir aðila á um ýmislegt sem gerðist í kjölfar þess.

Deilt hér á landi og í London

Krafa Framwalds hljóðar upp á viðurkenningu á því að félagið og stofnandi þess beri óskipta ábyrgð á tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir með fjárfestingu sinni. Kröfuna styður hann þeim rökum að í aðdraganda fjárfestingar sinnar hafi félagið og dr. Guðrún veitt rangar og misvísandi upplýsingar um félagið, starfsemi þess og vörur. Meðal annars hafi verið veittar rangar upplýsingar um innihaldsefni í vörum, geymsluþol þeirra, getu félagsins til að selja og dreifa vörunum jafnt innanlands sem utan og að endingu getu félagsins til að sækja um og fá einkaleyfi á vörunum. Þær upplýsingar hafi verið algjör forsenda þess að fjárfesta í félaginu.

Þeim staðhæfingum er harðlega mótmælt sem röngum og ósönnum af félaginu og stofnanda þess. Alla tíð hafi allt verið uppi á borðum og engu haldið frá hinum mögulegu fjárfestum. Þá er einnig á það bent að Farmwald hafi áratugareynslu af fjárfestingum af þessu tagi og að áreiðanleikakönnun hafi farið fram af hálfu fjárfestisins og ráðgjafa hans. Félagið hafi þar með fullnægt upplýsingaskyldu sinni auk þess að Farmwald, sem er reyndur fjárfestir, hefði mátt gera sér grein fyrir áhættunni sem fylgir því að fjárfesta í sprotafyrirtæki.

Samhliða málinu hér heima hefur Taramar einnig verið stefnt af sama aðila fyrir gerðardómi í London vegna ágreinings um dreifingarsamning þar í landi. Fyrirtækið þarf því að grípa til varna á tveimur vígstöðvum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .