Þórður S. Gunnarsson, dómari við héraðsdóm Reykjavíkur, ætlar að segja sig frá skaðabótamáli slitastjórnar Glitnis gegn níu manns sökum vanhæfis í málinu. Í málinu stefndi slitastjórnin m.a. Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis og stjórnarmönnum bankans á sínum tíma.

Málið varðar 15 milljarða króna víkjandi lán til þriggja ára sem áhættunefnd Glitnis samþykkti að veita Baugi til að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group í desember árið 2007. Baugur var stærsti eigandi FL Group á þeim tíma og FL Group stærsti eigandi Glitnis. Slitastjórnin stefndi níumenningunum í byrjun árs og krefst 6,5 milljarða króna skaðabóta frá þeim.

Þeir sem sátu í stjórn Glitnis á þessum tíma voru Þorsteinn M. Jónsson, sem var stjórnarformaður, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Pétur Guðmundsson, Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir. Þá var Tryggingamiðstöðinni stefnt en bankinn hafði keypt tryggingu hjá félaginu.

Úrskurður í málinu fellur í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun og mun nýr dómari verða í kjölfarið skipaður í stað Þórðar.

Þórður vann álitsgerð fyrir slitastjórnina gegn Jóni Ásgeiri og fleiri fyrrverandi stjórnendum Glitnis sem slitastjórnin höfðaði í New York í Bandaríkjunum fyrir rúmum tveimur árum.

Þórður vildi ekki tjá sig um ástæðuna í samtali við vb.is.