Beiðnir erlendra ferðaskrifstofa um endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna ferða keyptra hér á landi hafa hlaðist upp hjá Skattinum (RSK). Lög og reglugerðir benda til þess að skylt sé að endurgreiða upphæðirnar auk þess sem það samræmist fyrri framkvæmd skattayfirvalda. Mál hafi hins vegar enga afgreiðslu fengið og vísbendingar séu um breytta túlkun laga. Að mati lögmanns nokkurra ferðaskrifstofa má líkja framgöngu Skattsins við valdníðslu.

Til að unnt sé að gera málinu sæmileg skil er nauðsynlegt að rekja forsögu þess nokkuð. Með lagabreytingu árið 1995 var fjármálaráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis fyrir kaup á vörum og þjónustu. Samkvæmt síðari atrennu framsögu Friðriks Sophussonar, þáverandi fjármálaráðherra, – ræðan var týnd í fyrstu atrennu flutnings hennar og var því ekki flutt í réttri mynd fyrr en seint í fyrstu umræðu – var breytingunni meðal annars ætlað að „hjálpa til við ráðstefnuhald útlendinga hér á landi, svo ég taki eitt dæmi“.

Umrædd reglugerð kvað á um skilyrði sem aðili þyrfti að uppfylla til að geta fengið endurgreiðslu. Þau voru að hann stundaði atvinnurekstur erlendis, starfsemin væri virðisaukaskattskyld ef hún færi fram hér á landi og að um væri að ræða virðisaukaskatt sem talist gæti til innskatts eftir ákvæðum laga um virðisaukaskatt.

Árið 2016 tók gildi lagabreyting sem gerði starfsemi ferðaskrifstofa innanlands virðisaukaskattskylda. Sé litið til fyrrgreindra skilyrða fyrir endurgreiðslu þýddi það að erlendar ferðaskrifstofur gátu þar með fengið virðisaukaskatt, greiddan hér á landi vegna kaupa á vörum og þjónustu, endurgreiddan frá ríkinu.

Sjónarmið um samkeppnisstöðu

„Við sendum fyrst inn beiðni um endurgreiðslu fyrir einn umbjóðanda okkar síðari hluta ársins 2016. Þeirri beiðni var hafnað með ákvörðun RSK án allra raka,“ segir lögmaðurinn Börkur I. Jónsson við Viðskiptablaðið. Sú niðurstaða var kærð til yfirskattanefndar (YSKN) og bent á að ákvörðunin hefði verið haldin ýmsum formgöllum. Fyrir það fyrsta hefði hún verið á ensku auk þess að enginn rökstuðningur var fyrir því hvaða skilyrði hefði ekki verið uppfyllt. Fyrir nefndinni bárust þau rök frá RSK að ástæðan fyrir höfnuninni hefði verið samkeppnissjónarmið.

„Um mitt árið 2017 gerist það að RSK samþykkir beiðni um endurgreiðslu og í kjölfarið sendum við inn fleiri umsóknir fyrir fleiri rekstraraðila. Við sendum inn um það bil tíu umsóknir í mánuði hverjum en afgreiðsluhraði RSK var umtalsvert minni, það er samþykki barst aðeins öðru hvoru fyrir eitt og eitt mál á árunum 2017-18,“ segir Börkur.

RSK beiti lögum afturvirkt

Undir lok árs 2018 var síðan samþykkt lagabreyting á Alþingi sem fellir niður téða endurgreiðsluheimild hvað varðar virðisaukaskatt á „vörum og þjónustu til endursölu og endanlegrar neyslu [á Íslandi]“. Var það gert til að bregðast við mögulegri röskun á samkeppnisstöðu, meðal annars í hótelrekstri og ferðaþjónustu.

„Í apríl í fyrra er mér síðan tjáð símleiðis, af starfsmanni RSK, að fyrirhugað sé að hafna öllum málunum sem höfðu safnast upp hjá þeim. Í september 2019 var eitt mál tekið út fyrir sviga og beiðninni hafnað, meðal annars með vísan til lagabreytingarinnar sem tók gildi í byrjun þess árs. Með öðrum orðum, sú breyting var látin gilda afturvirkt,“ segir Börkur.

Segir Skattinn sýna valdníðslu

Að sögn Barkar hafi málið sem hafi verið tekið út fyrir sviga verið yngra en margar aðrar umsóknir sem enga afgreiðslu fái. Bara mál hans skjólstæðinga varði á annan milljarð króna og hann viti um fleiri lögmenn og fyrirtæki sem standi í sama stappi. „Að mínu viti er það ákveðin valdníðsla af hálfu Skattsins að taka eitt mál, afgreiða það en loka samtímis á að aðrir, sem jafnvel sendu sín mál inn fyrr, geti fengið botn í þau. Meðan málin eru óafgreidd hjá embættinu hafa umbjóðendur mínir enga leið til að sækja rétt sinn,“ segir Börkur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .