Erfitt er að fullyrða hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á lánakjör í skuldabréfaútgáfu ríkisins utanlands, að sögn Katrínar Ólafsdóttur, lektors í hagfræði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Rætt er við hana í Fréttablaðinu í dag í tengslum við umfjöllum um það að Ísland er úti í kuldanum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Á sama tíma streyma peningar aftur til annarra landa sem urðu illa úti í fjármálakreppunni.

Umfjöllunarefnið er samanburður á nokkrum löndum í nýrri umfjöllun International Financial Rewiew (IFS). Það er staða Íslands borin saman við Írland, Portúgal og Grikkland. Þangað streymi nú erlent fjármagn en ekki hingað. Bent er á að síðan ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við í sumar hafi vextir á fimm ára skuldabréf ríkisins farið úr 4,1% í 6,4%. Á sama tíma bjóðast Írum lán með 1,8% vöxtum og Portúgölum lán með 3,8% vöxtum. IFS segir þróunina skýrast af stjórnarskiptum og ósveigjanleika stjórnvalda í viðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna.  Katrín bætir því við að eins kunni að spila inn í áhyggjur af því að fyrirhuguð skuldaniðurfelling lengi í gjaldeyrishöftunum.