Þrátt fyrir ummæli margra málsmetandi aðila um að blikur séu á lofti á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum segir Michael Wilson, yfirmaður hlutabréfagreiningar hjá Morgan Stanley markaðinn eiga meira inni. Samkvæmt frétt Bloomberg skrifaði hann í minnisblaði sem er dagsett í dag að S&P 500 vísitalan muni ná 2.700 stigum áður en árið er á enda.

S&P 500 vísitalan stendur nú í 2.462 stigum. Gerir Wilson því ráð fyrir hækkun upp á 9,6%. Í minnisblaðinu segir Wilson að bandarískir hlutabréfamarkaðir geti haldið áfram að hækka í kjölfarið á betri afkomutölum fyrirtækja. Segir hann að framreiknuð V/H hlutföll muni koma til með að hækka í kjölfarið á væntingum til aðgerða stjórnvalda til að örva hagvöxt í landinu.

Segir Wilson að margt bendi til þess að breytingar verði gerðar á heilbrigðiskerfi og skattkerfi Bandaríkjanna. Segir hann að um leið og þessar umbætur verði komnar í gegn muni það gefa fjárfestum byr undir báða vængi. Á sama tíma muni fjöldi samruna og yfirtökum fjölga sem muni ýta undir hærra eignaverð.

Staðhæfingar Wilson eru þvert á orð Larry Fink forstjóra BlackRock frá því fyrr í dag. Sagði Fink að markaðsáhætta væri til staðar í sambandi við getu stjórnvalda til þess að koma umbótum í verk. Spurði Fink að því hvort að Bandaríkjamenn myndu sjá breytingar á skattkerfinu eða ekki.