Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, telur aðhaldssama peningamálastefnu hafa komið í veg fyrir enn meiri verðbólguholskeflu en þá sem nú ríður yfir.

Í grein eftir Arnór, sem birtist í nýútkomnum Fjármálatíðindum, kemur fram að frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp hafi íslenskur þjóðarbúskapur gengið í gegnum skammvinnt skeið samdráttar, en mikla þenslu í kjölfarið. Arnór veltir þeirri spurningu upp hvort eftirspurnarskellir á tímabilinu hafi einfaldlega verið of stórir til að sjálfstæð peningamálastefna gæti hindrað verðbólguhrinu.

Er þar skemmst að minnast mikillar fjárfestingar í verkefnum tengdum stóriðju, mjög rýmkuðum útlánaheimildum Íbúðalánasjóðs og útlánabylgju til almennings í kjölfar einkavæðingar bankanna. Einnig telur hann þann möguleika fyrir hendi að Seðlabankinn hafi gert mistök við framkvæmd peningamálastefnunnar eða að tilhögun peningamála á Íslandi sé hreinlega gölluð: „Getur hugsast að smæð þjóðarbúskapsins geri stjórnvöldum peningamála erfitt um vik að ná settum markmiðum á ótilhlýðilegs kostnaðar?“ - segir Arnór í grein sinni.

Nánar er fjallað um grein Arnórs í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf formi hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta látið opna fyrir hann með því að senda tölvupóst á [email protected] .