Brotaforðakerfið er óstöðugt og ýtir undir áhættusækni þar sem seðlabönkum tekst ekki að hemja peningamyndun banka. Færa þarf peningamyndun frá bönkum til Seðlabankans til að draga úr óstöðugleika, minnka skuldir og beina tekjum af peningamyndun í ríkissjóð. Þetta eru niðurstöður nýútkominnar skýrslu um endurbætur á peningakerfinu sem unnin var af Frosta Sigurjónssyni, alþingismanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að beiðni forsætisráðherra.

Að mati Ásgeirs Jónssonar, dósents í hagfræði við Háskóla Íslands, er skýrslan þarft innlegg í umræðuna um peningamál þótt hann telji upptöku þjóðpeningakerfis ekki vera raunhæfa lausn. Hann bendir á að almennt er ekki vilji til annars en að binda peninga til skamms tíma og að taka lán til langs tíma. Þótt tímaumbreyting bankanna á milli eigna og skulda sé vissulega áhættusöm þá gegnir hún einnig mikilvægu hlutverki í efnahagslífinu. „Í skýrslunni er talað um að bankarnir prenti út peninga með útlánum. Það er ekki rétt nema að hluta. Það má segja það að bankar búi til tvær afurðir: útlán og innlán. Þú vilt eiga innlán, þú vilt eiga greiðsluþjónustu og þetta er þjónusta sem bankinn er að veita. Það er ekki eins og bankar séu að neyða peninga ofan í fólk. Þeir eru að bregðast við lausafjáreftirspurn.

Bankakerfið myndi skreppa saman

Þessi peningaprentun á sér ekki stað í tómi, heldur er verið að bregðast við ákveðinni eftirspurn,“ segir Ásgeir. Í stuttu máli sagt yrði bönkum bannað að stunda tímaumbreytingu með upptöku þjóðpeningakerfis. Öll veltiinnlán þeirra yrðu færð inn í Seðlabankann sem síðan afhendir þeim skuldabréf sem þeir þurfa að borga upp. „Það felur í sér að bankakerfið þarf að minnka verulega þegar það þarf að greiða upp þessa fjármögnun. Þannig myndu bankaútlán dragast saman og útlánavextir myndu hækka. Töluvert stór hluti af vaxtamuni bankanna hefur verið þessi tímaumbreyting, að taka peninga að láni stutt og lána langt. Með þessu þjóðpeningakerfi er lítill tilgangur fyrir bankana að vera með útibú lengur. Bankakerfið myndi skreppa saman og útlánin myndu minnka. Þeir myndu væntanlega þurfa að hækka vaxtamuninn í kjölfarið. Bankar myndu í raun og veru breytast í hálfgerða fjárfestingarsjóði með þessu. Fólk leggur inn fé í banka sem er bundinn í ákveðinn tíma, en getur ekki notfært sér greiðsluþjónustu,“ segir Ásgeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .