Bæta þarf málsmeðferð við töku ákvarðana hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR), auka þarf hlutfall viðskiptavina TR sem fá réttar greiðslur og stofnunin þarf að sinna betur leiðbeiningarskyldu sinni og efla upplýsingagjöf. Þá þarf að endurskoða núgildandi fyrirkomulag um að rekin séu umboð fyrir TR hjá sýslumannsembættum landsins.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, Tryggingastofnun ríkisins og staða almannatrygginga , sem unnin var að beiðni Alþingis. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr í dag.

Í skýrslunni kemur fram að það sé mat Ríkisendurskoðunar að mikilvægt sé að heildarendurskoðun laga um almannatryggingar ljúki sem fyrst. Vinna við hana hafi staðið yfir frá árinu 2005, en lagaumgjörðin sé flókin og ógagnsæ.

„Tryggingastofnun ríkisins hefur það meginhlutverk að annast framkvæmd og stjórnsýslu lífeyristrygginga almannatrygginga. Stofnunin ákvarðar ekki fjárhæðir greiðslna og bóta sem greiddar eru á grundvelli laga um almannatryggingar og félagslega aðstoð en hún úrskurðar í málefnum fólks og ákvarðar réttindi þeirra og skyldur, m.a. á grundvelli framangreindra laga. Árið 2019 greiddi stofnunin út um 153 ma.kr. til rúmlega 77.300 viðskiptavina. Það jafngilti um 19% ríkisútgjalda. Viðskiptavinir Tryggingastofnunar eru margir í viðkvæmri stöðu og treysta alfarið á greiðslur frá stofnuninni. Af þeim sökum verður að gera ríkar kröfur til stofnunarinnar um fagmennsku og góða stjórnsýslu, ekki síst á sviði upplýsingagjafar og leiðbeininga. Verklag stofnunarinnar þarf jafnframt að vera vel skilgreint svo að tryggt sé að mál séu afgreidd tímanlega og á réttan og samræmdan máta en löggjöf þarf sömuleiðis að vera skýr, kæruleiðir vel skilgreindar og stefnumótun í málaflokknum markviss,“ segir m.a. í niðurstöðukafla skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Í niðurstöðu kaflanum eru jafnframt farið yfir nokkrar brotalamir í rekstri TR. Er m.a. komið inn á að brotalamir séu í meðferð mála, bent á hátt hlutfall of- og vangreiðslna og óánægju meðal öryrkja með þjónustu stofnunarinnar.

Leggur Ríkisendurskoðun fram eftirfarandi sjö tillögur til úrbóta, en áhugasamir geta lesið sér nánar til um tillögurnar á bls. 11 og 12 í skýrslunni.

  • Bæta þarf málsmeðferð við töku ákvarðana
  • Auka þarf hlutfall viðskiptavina sem fá réttar greiðslur
  • Ljúka þarf heildarendurskoðun laga um almannatryggingar
  • Leggja þarf aukna áherslu á málefni almannatrygginga
  • Heildarstefnumótun í lífeyrismálum nauðsynleg
  • Umboðsmenn Tryggingastofnunar hjá sýslumannsembættum
  • Fjárveitingar nýttar í samræmi við tilgang þeirra