Fjármálaráðuneytið telur að það megi að skaðlausu hækka hlutfall breytilegra starfskjara (þ.e. kaupauka) til starfsmanna fjármálafyrirtækja upp í 50% af föstum árslaunum. Einnig telur það að hægt sé að setja sérreglur fyrir minni fjármálafyrirtæki þar sem þeim verður heimilt að greiða allt að 100% af föstum árslaunum. Þetta kemur fram í viðbrögðum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við umsögnum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Núverandi hlutfall kaupauka af föstum árslaunum er 25%.

Frumvarpið er í megindráttum ætlað til þess að taka upp nýtt regluverk Evrópusambandsins um fjármálafyrirtæki, CRD IV, sem byggir á Basel III staðlinum. Frumvarpið var lagt fram í febrúar síðastliðnum en síðan þá hafa nokkrir aðilar skilað inn umsögnum sem Fjármálaráðuneytið hafði til umfjöllunar. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja um frumvarpið kom fram að samtökin leggjast í megindráttum gegn því að teknar verði upp séríslenskar reglur hér á landi og vilja að regluverk ESB verði að fullu tekið upp hér á landi.

Í CRD IV regluverkinu er gert ráð fyrir því að kaupaukar starfsmanna fjámálafyrirtækja geti verið allt að 100% af föstum árslaunum auk þess sem að stjórnum fyrirtækja er heimilt að hækka hlutfallið um allt að 200%. Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið reglna um hámarksflutfall kaupauka taki einungis til þeirra sem hafa veruleg áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækja. Samkvæmt skilgreiningunni nær gildissvið reglunnar því til yfirstjórnar, lykilstarfsmanna, starfsmanna eftirlitseininga og annarra starfsmanna sem njóta sambærilegra heildarstarfskjara og yfirstjórn og lykilstarfsmenn en með yfirstjórn er átt við framkvæmdastjóra, aðstoðarframkvæmdastjóra og aðra stjórnendur fjármálafyrirtækis sem heyra beint undir framkvæmdastjóra eða, eftir atvikum, stjórn.