Viðskiptaráð Íslands hefur sent fjármála- og efnahagsráðherra og umboðsmanni Alþingis bréf með ábendingum um umbætur á stjórnsýsluháttum Seðlabanka Íslands.

Fram kemur í tilkynningu frá Viðskiptaráði að bréfið sé sent í kjölfar fjölda athugasemda frá aðildarfélögum ráðsins varðandi starfshætti bankans við afgreiðslu undanþágubeiðna. Viðskiptaráð telur brýnt að endurskoða ferla innan gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og bæta þann stjórnsýsluramma sem eftirlitið starfar samkvæmt þar til afnám hafta á sér stað.

Viðskiptaráð telur helst athugavert hvað afgreiðsla umsókna taki langan tíma og engin tímamörk séu til staðar eða viðmið við hámarkstíma. Jafnframt segir Viðskiptaráð að ógagnsæi ríki um ákvarðanatöku gjaldeyriseftirlitsins og að jafnræði milli umsækjenda hafi verið dregið í efa af forsvarsmönnum fyrirtækja. Þá segir einnig að skortur sé á kæruleið vegna synjunar á undanþágubeiðnum og aðilar þurfi að bera þær beint undir dómstóla.

Í ljósi þessara atriða hvetur Viðskiptaráð fjármála- og efnahagsráðherra til að beita sér fyrir umbótum á þessu sviði með styttingu afgreiðslutíma og skilvirkari samskiptum við umsækjendur. Þá mælist ráðið til þess að settur verði hámarkstími á afgreiðslu undanþágubeiðna og gagnsæi verði tryggt með birtingu ákvarðana með þeim hætti að þagnarskyldu sé gætt. Þá þurfi að koma á kæruleið að nýju svo unnt sé að láta reyna á málsmeðferð og niðurstöðu ákvarðana með fljótvirkum hætti.