Greiningardeild Landsbankans gagnrýnir í Vegvísi sínum í dag að hvorki er í ársuppgjöri 365 né í fréttatilkynningu með uppgjörinu að finna heildstætt yfirlit yfir reksturinn á fjórða ársfjórðungi.

Þannig bendir greiningardeildin á að sökum umfangs aflagðrar starfsemi á fjórðungnum liggi  ekki beint við að leiða út niðurstöðu einstakra liða út frá rekstrartölum níu mánaða uppgjörs. Þannig skortir t.d. upplýsingar um afskriftir og fjármagnskostnað á fjórðungnum. "Í svörum við fyrirspurnum á kynningarfundi í kjölfar uppgjörsins kom fram að ekki stæði til að veita þessar upplýsingar. Upplýsingagjöfin er því ekki eins og best verður á kosið og er það miður," sagði í Vegvísinum.