Tillaga ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu á hluta af verðtryggðum skuldum heimilanna gæti haft jákvæð áhrif á byggingageirann og leitt til hærra íbúðaverðs, að mati Kristins B. Ragnarssonar, fasteignasala hjá Allt fasteignum. Hann setur hins vegar fyrirvara við hugsanleg áhrif aðgerðanna.

„Þetta fer eftir því hverjir fá skuldaniðurfellingu og hverjir ekki, fá þeir skuldaniðurfellingur sem fóru 110% leiðina á sínum tíma? Allt þetta á eftir að koma í ljós. Það verður að hafa í huga að bankarnir og Íbúðalánasjóður hafa hert mjög útlánareglur sínar eftir að ný neytendalög tóku gildi.  Þetta verður til þess að erfiðara er fyrir fólk að standast greiðslumat og gerðar eru meiri kröfur til lántakenda, meðal annars er skoðuð viðskiptasaga lántakenda aftur tímann og ýmiss viðmið við greiðslumat hafa hækkað verulega, svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann og bætir við að það geti heft markaðinn.

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í dag, gera ráð fyrir að lækkun höfuðstóls lána og skattleysi á lífeyrisiðgjöldum sem fara til niðurgreiðslu íbúðalána geta annars vegar haft áhrif á fasteignaverð og hugsanlega ýta undir íbúðabyggingar. Fólk sem hafi verið í biðstöðu til þessa fari að hugsa sér til hreyfings á fasteignamarkaði. Hann benti þó á að fasteignaverð hafi hækkað að undanförnu og því sé erfitt að meta stöðuna. „Að öllu jöfnu held ég að [...] áhrifin verði eitthvað meira en þarna er gefið til kynna, en hvort þau verða verulega mikið meiri er ógurlega erfitt að segja um á þessum tímapunkti,“ sagði hann.

Kristinn tekur í svipaðan streng og Ari. Gangi allt eftir muni fólk vita hvernig það stendur enda hafi eiginfjárstaða þess breyst.