„Ég tel að þegar á allt er horft ætti gjaldtakan ekki að ríða útgerðinni svo að hún geti ekki staðið upp,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Hún telur fleira koma til en veiðileyfagjaldið sem ríði fyrirtækjum í sjávarútvegi að fullu.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem vakti máls á afleiðingum veiðileyfagjaldsins í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Vísaði hún til þess að útgerðarfyrirtækið Auðbjörg í Þorlákshöfn hafi sagt upp 27 manns af 72. Fyrirtækið á fjóra báta en ætlar að selja tvo þeirra.  Ragnheiður sagði fréttirnar koma í kjölfar uppsagna hjá tveimur útgerðarfyrirtækjum á Siglufirði.

Álögur fóru úr milljón á mánuði í milljón á viku

Ragnheiður benti á að með veiðileyfagjaldinu hafi skattgreiðslur á útgerðina í Þorlákshöfn farið úr einni milljón króna á mánuði í eina milljón á viku. „Þorlákshöfn er að blæða út,“ sagði hún.

Jóhanna tók undir að uppsagnir á 27 manns séu vissulega alvarleg mál fyrir lítið bæjarfélag. Hún vísaði því hins vegar á bug að veiðigjaldið eitt og sér ætti sök á því hvernig komið sé fyrir fyrirtækjum í sjávarútvegi.

„Eftir að veiðigjald hefur verið greitt þá hefði maður haldið að töluvert væri eftir til skiptanna í útvegsfyrirtækjum til nýtingar. Ég tel að það þurfi að skoða einstaka fyrirtæki. Í álagningu á veiðigjaldinu hefur verið tekið til skulda fyrirtækja, lítilla og meðalstórra,“ sagði hún og þvertók fyrir að endurskoða þurfi veiðileyfagjaldið vegna þessa.