Daði Kristjánsson, sem starfar í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance, segir í samtali við Viðskiptablaðið að margar afsakanir séu uppi um að lækka ekki vexti. Telur hann meðal annars verðbólguspá Seðlabankans of háa.

Það sem hann telur hvað áhugaverðast í þessu er að Seðlabankinn spáir því að gengisvísitala krónunnar verði 165 á næsta ári, sem er í raun hærra en það er núna. Á sama tíma er talað um að þeir ætli að draga úr inngripi á gjaldeyrismarkaði. „Ég á erfitt með að sjá að krónan geti veikst frá því sem nú er miðað við þær forsendur. Ég held að krónan eigi eftir að halda áfram í sama farvegi og styrkjast enn frekar. Kannski ekki jafn mikið og á síðustu misserum — þetta er búið að vera 9% styrking frá ágúst og núna til október, sem er gríðarlegt,“ segir Daði.

Daði er þó ekki sannfærður um að að það sé verið að loka á möguleikann um vaxtalækkanir á næstu misserum. „Mér leið fyrst þannig þegar ég las yfirlýsingu Peningastefnunefndar í morgun. En það breyttist þegar þeir ræddu um þessi mál á fundinum. Þá segir Már til að mynda að það þurfi gríðarlega mikið til þess að vextir hækki, sem er þó allaveganna jákvætt. Manni fannst eins og það væru skiptar skoðanir á þessu máli hjá þeim.

Ef að krónan heldur áfram að styrkjast, verða þeir að aðlaga verðbólguspánna sína á næsta peningamálafundi sem er í febrúar. Næsta stýrivaxtaákvörðun verður þó tekin í desember. Því er ekkert útilokað að þeir lækki vexti í desember ef krónan styrkist og verðbólgutalan verði lág í nóvember,“ segir Daði.

Galin verðbólguspá

Daði telur líklegt að Seðlabankinn taki niður verðbólguspá sína í næstu peningamálum. „Þeir birta verðbólguspá fyrir fjórða ársfjórðung og spá því að það verði 2,1% meðalverðbólga í þessum mánuðum. Nú er október búinn og þá var 0,0% breyting milli mánaða og stendur hún því í 1,8%. Allar greiningardeildir eru að spá -0,2% í nóvember. Ef það gerist verður að vera 1% verðbólga í desember, til þess að spáin rætist. Það er algjörlega galið. Það eru allar líkur á því að þessi verðbólguspá fyrir síðasta ársfjórðung, sem var birt í dag, verði langt frá raunveruleikanum,“ tekur Daði fram.

Hann bætir við að: „Ef þú horfir á greiningardeildir eru þær að spá 0 til 0,3% í desember — það er ekkert í kortunum að það verði 1% verðbólga í desember. Það virðist augljóst að Seðlabankinn sé að ofspá verðbólgu verulega. Það finnst mér alvarlegt. Ofan á þetta er gert ráð fyrir því að krónan verði veikari á næsta ári — og mér finnst ekki forsendur til þess að áætla það,“ segir Daði.

Áhrif vaxtaákvörðunar á markaðinn

„Þessu var ekki vel tekið strax í morgun. Ávöxtunarkrafa á markaði hækkaði til að byrja með. Það voru ágætlega jákvæð teikn á fundinum sjálfum. Þá hefur markaðurinn fengið eitthvað sjálfstraust til baka. Markaðurinn hefur þó orðið fyrir vonbrigðum með niðurstöðuna. Margir eru á því að rík ástæða sé til þess að lækka vexti,“ segir Daði að lokum.