*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 13. maí 2018 14:05

Telur verðið fyrir Iberica gott

Iceland Seafood reyndi að kaupa Icelandic Iberica á meira en fjórfalt lægra verði árið 2016 en þeir kaupa fyrirtækið á nú.

Ritstjórn
Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Við buðum þetta út og þetta var ótvírætt hagstæðasta tilboðið,” segir Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), um sölu FSÍ á Icelandic Iberica til félagsins Solo Seafood árið 2016 fyrir 1,8 milljarða króna.

Solo Seafood seldi félagið í síðustu viku til Iceland Seafood International (ISI) fyrir 45% hlut í ISI. Markaðsvirði hlutanna í ISI er metið á 8,2 milljarða króna, ríflega fjórfalt hærri upphæð en Solo Seafood greiddi FSÍ líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun maí.

Bæði innlendir og erlendir aðilar buðu í Icelandic Iberica í opnu söluferli, þar á meðal ISI að sögn Þorkels. „Við vorum að selja fyrir reiðufé þar sem kaupandinn tekur yfir alla ábyrgð á félaginu. Síðan eru þeir búnir að reka þetta í einhvern tíma og eflaust hefur nýr kaupandi verið mjög spenntur að fá þá inn í samstæðuna,” segir Þorkell.

Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármanssonar, á 24% hlut í Solo Seafood, og verður næststærsti hluthafi ISI með tæplega 11% hlut. Sjávarútvegsfyrirtækin FISK-Seafood, Jakob Valgeir og Nesfiskur eiga 22% hlut hvert í Solo Seafood og Hjörleifur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Icelandic Iberica, á 10% hlut. Að teknu tilliti til þess að yfir 40% kaupverðs Solo Seafood voru fjármögnuð með lánsfé er ávöxtun þeirra af viðskiptunum yfir 600% á um 18 mánuðum.

Solo í betri stöðu en aðrir 

Þorkell bendir á að þar sem sjávarútvegsfyrirtækin þrjú hafi verið birgjar Icelandic Iberica hafi þau því verið í aðstöðu til að búa til meiri verðmæti úr félaginu en aðrir hafi átt möguleika á. „Þetta auðvitað tengist því að þeir þekktu félagið, voru framleiðendur þess og í þeirri stöðu að geta borgað hæst verð þegar við seldum þetta,” segir Þorkell.

Þorkell segist fagna því að tekist hafi áfram að búa til aukin verðmæti úr Icelandic Iberica. „Verðið sem við fengum var mjög gott og maður fagnar þessu bara. Þetta er hið besta mál,” segir Þorkell.

„Þetta sameinaða félag er að fá ofboðslega sterka aðila inn í reksturinn með stjórnunar- þekkingu og öfluga eigendur,” segir hann um ISI eftir kaup ISI á Icelandic Iberica nú. Þorkell segir að trúlega hafi samkeppnisstaða ISI einnig veikst eftir kaup Solo Seafood á Icelandic Iberica enda hafi kaupendurnir hafi verið stórir birgjar beggja fyrirtækja. Til framtíðar litið hafi það verið mjög mikilvægt fyrir ISI að búa til þetta öfluga félag.