„Vinnumarkaðurinn er að rétta úr kútnum og störfum er tekið að fjölga," skrifar Sigurður Snævarr efnahags- og atvinnuráðgjafi forsætisráðherra í Fréttablaðið í dag. Hann fer yfir opinberar tölur sem hafa verið birtar og segir að niðurstaðan sé sú að frá öðrum ársfjórðungi 2009 til sama tíma í ár „hafi störfum fjölgað um 3.600 eða nokkru umfram fjölgun starfandi fólks og kemur hér til að áætlað starfshlutfall þeirra sem eru í hlutastörfum hefur aukist lítillega."

Ber á manneklu

„Margt bendir til að eftirspurn eftir atvinnu sé að glæðast og að jafnvel beri á manneklu í einstökum greinum og landssvæðum. Þá má einnig benda á að atvinnuleysi í júlí sl. var 6,6% og hefur ekki mælst lægra síðan í desember 2008," skrifar Sigurður.

Hann fer yfir spár um atvinnuleysi og segir Seðlabankann hafa endurmetið horfur á vinnumarkaði og spái nú að atvinnuleysi verði 7,1% í ár í stað 7,7% í fyrri spá. Bankinn geri ráð fyrir að atvinnuleysi lækki á næstu árum og verði 5,8% á árinu 2013.

„Hagstofan gerir með sama hætti ráð fyrir lækkun atvinnuleysis á næstu árum og reiknar með 5,4%% atvinnuleysi 2013. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er raunar enn bjartsýnni og spáir 4,3% atvinnuleysi 2013. Þessi lækkun gefur fyrirheit um að markmið kjarasamninga um 4-5% atvinnuleysi 2013 sé í augsýn og aðgerðir í atvinnu- og efnahagsmálum hljóta að miða að því markmiði verði náð," skrifar Sigurður.