Arnar Sigurmundsson stjórnarformaður Landsamtaka lífeyrissjóða gagnrýndi meðhöndlun Yfirtökunefndar á Glitnismálinu í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna fyrr í dag. Þar sagði Arnar: "Það urðu því okkur sem vinnum á vettvangi lífeyrissjóðanna nokkur vonbrigði að lesa yfirlýsingu formanns nefndarinnar, sem gefin var í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Glitni, að tveir ótilgreindir aðilar hafi hafnað að veita nefndinni upplýsingar sem tengdust fyrrgreindum viðskiptum."

Arnar sagði að það væri grundvallaratriði fyrir heilbrigði fjármagnsmarkaðarins og jafnframt fyrir trúverðugleika Yfirtökunefndarinnar að hún beiti þeim úrræðum sem henni voru fengin við stofnun. "Yfirtökunefndin á að birta opinberlega nöfn þeirra aðila sem með einhverjum hætti leggja stein í götu nefndarinnar, hvort heldur með skorti á upplýsingagjöf eða með því að láta ekki ná í sig og þannig komast hjá því að veita nefndinni upplýsingar," sagði Arnar.

Hann sagði að hiki nefndin við að beita þessu grundvallarúrræði, sem kann að vera harkalegt, en sem engu að síður felst í víðtækum stuðningi markaðsaðila, væri nefndin bitlaus. "Að ætla henni hlutverk með lögum eins og nefnt hefur verið af fjölmiðlum og af stöku stjórnmálamönnum er þarflaust. Þar með hverfur möguleikinn fyrir skjótar niðurstöður í álitamálum á hraðskreiðum fjármálamarkaði."