Andri Árnason, framkvæmdastjóri Miðlunar, segir yfirvöld í gegnum Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) mismuna öðrum fyrirtækjum sem vilja bjóða upp á sömu þjónustu og Já upplýsingaveitur ehf. Þarna á hann við upplýsingar um símanúmer einstaklinga líkt og fá má í gegnum 118. „Miðlun ehf. hefur áhuga á að bjóða upplýsingar um símanúmer einstaklinga í samkeppni við Já upplýsingaveitur sem rekur 118. Það er dýrt að hringja í 118 , við vitum að það er hægt að bjóða þessa þjónustu fyrir lægra verð,“ segir Andri. Hann segir að Miðlun hafi beinlínis verið haldið frá því að bjóða upp á sambærilega þjónustu. „Þeir aðilar sem rekið hafa 118 hafa reynt að halda okkur frá þessum markaði.

Sem dæmi um það má nefna að Já upplýsingaveitum er skilt að veita okkur aðgang að gögnum um símanúmer. Þeir hafa boðið okkur aðgang að gögnum á verði sem er 40 sinnum hærra en Póst og fjarskiptastofnun telur eðlilegt,“ segir Andri. „Það er einkennilegt að enginn geti keppt við 118 - þetta er einokunarfyrirtæki. Við vitum að það er hægt að bjóða ódýrari þjónustu en veitt er í 118. Við viljum bara fá eðlilegar samkeppnisaðstæður.“ Númerið 118 er í eigu hins opinbera en Já fékk fyrr á þessu ári leyfi til að reka það í fimm ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.