Tempo, hlutdeildarfélag Origo, hefur fest kaup á hugbúnaðarfyrirtækinu ALM Works sem er með aðsetur í Newton, Massachusetts. Kaupin eru fjármögnuð af hluthöfum Tempo, ytri fjármögnun og útgáfu nýrra hluta. Eignarhlutur Origo í Tempo verður um 41% eftir kaupin, samkvæmt tilkynningu Origo til Kauphallarinnar. Origo átti 43,2% eignarhlut í Tempo í árslok 2020 sem var bókfærður á nærri þrjá milljarða króna.

ALM Works hefur þróað verkefnastjórnunarkerfi fyrir hugbúnaðargerð sem hjálpar þróunarteymum að bæta ákvarðanatöku, auka skilvirkni og ná tilætluðum árangri. Árlegar endurteknar tekjur ALM eru um það bil 23 milljónir dala, eða um 3 milljarðar króna, og EBITDA framlegð er yfir 20%.

Fyrir rúmum mánuði síðan var tilkynnt um kaup Tempo á kanadíska fyrirtækinu Roadmunk sem þróar hugbúnað til að hjálpa fyrirtækjum að byggja upp, hanna og miðla stefnu fyrir hugbúnaðarvörum með sjónrænum hætti.

Sjá einnig: Tíminn ei týnist með Tempo

Viðskiptablaðið fjallaði um Tempo í sumar en fyrirtækið býr til hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum við tímastjórnun, áætlanagerð og kostnaðarstjórnun. Tempo var upphaflega þróað sem lausn við innanbúðarvandamáli hjá Nýherja, sem nú heitir Origo, í kringum hrunið en árið 2015 var stofnað sérstakt félag utan um rekstur Tempo. Viðskiptavinahópur fyrirtækisins samanstendur af 20 þúsund fyrirtækjum, þar á meðal Disney, Volkswagen og Boeing.