Tímaskráningar-og verkefnaumsjónarkerfið Tempo frá TM Software, einu af dótturfélögum Nýherja, hefur nú verið selt til 45 landa og eru viðskiptavinir komnir yfir eitt þúsund. Árangrinum hefur fyrirtækið náð á tveimur árum.

Hugbúnaðurinn er eingöngu seldur í gegnum netið og geta viðskiptavinir valið um setja hugbúnaðinn upp í sínu eigin umhverfi eða keypt aðgang að hugbúnaðinum í gegnum tölvuský, samkvæmt upplýsingum frá Nýherja.

Á meðal notenda Tempo-kerfisins eru Kauphöllin í London og Deutsche Bank. Tempo-kerfið er viðbót við verkbeiðna- og þjónustukerfið JIRA frá ástralska hugbúnaðarfyrirtækinu Atlassian og gerir notendum mögulegt að tengja við tímaskráningar og koma í veg fyrir tvískráningar beiðna og reikninga.

Kerfið var upphaflega þróað til innanhússnota en ákveðið var að prófa það til sölu í gegnum netið til reynslu. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa, samkvæmt upplýsingum frá Nýherja.