Tencent-samsteypan er án efa stærsta tæknifyrirtæki Kína. Fyrirtækið er alltumlykjandi þar sem það er bæði stærsta tölvuleikjafyrirtæki heims, eitt stærsta samfélagsmiðlafyrirtæki heims, einn stærsti nýsköpunarfjárfestir í heimi auk þess að vera eitt af verðmætustu tæknifyrirtækjum heims en í byrjun desember 2019 nam markaðsverðmæti þess um 410 milljörðum dollara.

Tencent er ekki ýkja gamalt fyrirtæki en það var stofnað árið 1998 af Ma Huateng sem er enn í dag forstjóri og stjórnarformaður þess. Fyrsta vara fyrirtækisins var skilaboðaforritið QICO sem seinna fékk nafnið QQ. Þrátt fyrir mikinn vöxt QQ var félagið þó ekki arðbært fyrstu þrjú árin eftir stofnun þess. Um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar hóf fyrirtækið sókn sína á aðra markaði meðal annars með leitarvélinni Soso auk þess að gefa út tölvuleikina CrossFire og Dungeon Figther Online. Hins vegar má segja að undirstöðurnar undir mikinn vöxt og stærð félagsins hafi verið lagðar árið 2011 þegar Tencent festi kaup á meirihluta í tölvuleikjaframleiðandanum Riot Games, sem er hvað þekktastur fyrir tölvuleikinn League of Legends auk þess sem samfélagsmiðillinn Weixin sem seinna fékk nafnið WeChat kom út og nánar verður fjallað um hér á eftir.

Óhætt er að segja að starfsemi Tencent sé víðtæk en fyrirtækið hefur óneitanlega notið góðs af því að starfsemi bæði Facebook og Google er bönnuð í Kína. Tencent rekur eins og áður segir samfélagsmiðla, tónlistarfyrirtæki, vefgáttir á borð við þjónustur eins og Google Drive, fyrirtæki í netviðskiptum, símaleiki, internetþjónustu, greiðsluþjónustu, leitarvél, netbanka, framleiðir snjallsíma og hefðbundna tölvuleiki. Þá eru dótturfyrirtæki Tencent yfir hundrað talsins sem starfa í nær öllum greinum þar sem tækni kemur við sögu auk þess sem sum þeirra starfa í greinum frá landbúnaði til kvikmyndaframleiðslu.

Tekjur fyrirtækisins hafa vaxið gífurlega á síðustu árum. Á árinu 2011 námu tekjur þess um 4,4 milljörðum dollara en á síðustu 12 mánuðum til loka júní námu þær um 49,8 milljörðum og hafa því ríflega ellefufaldast á sjö árum. Um 52% af tekjum koma af virðisaukandi netþjónustu (e. Internet value-added services), um 27% frá fjártækni og þjónustu við fyrirtæki og um 19% af netauglýsingum en til samanburðar er hlutfallið um 97% hjá Facebook og um 86% hjá Alphabet. Þá hefur afkoma fyrirtækisins einnig aukist gífurlega en árið 2011 nam hagnaður þess um 1,6 milljörðum dollara en hagnaður síðustu 12 mánaða til loka júní nam um 13 milljörðum dollara.

Tencent var skráð á hlutabréfamarkað í Hong Kong árið 2014 og hefur hlutabréfaverð þess fylgt miklum vexti í bæði tekjum og hagnaði. Eins og áður segir er markaðsvirði þess nú um 410 milljarðar dollara en er þó tæplega 20% lægra en það var í ársbyrjun 2018 þegar hlutabréfaverð Tencent náði hæstu hæðum. Í byrjun árs 2018 nam markaðsvirði Tencent 508 milljörðum dollara og var fyrirtækið þá það fimmta verðmætasta í heimi á eftir Apple, Alphabet, Microsoft og Amazon. Hafði hlutabréfaverð þá ríflega 500-faldast frá skráningu árið 2004.

Það kemur hins vegar töluvert á óvart að stærsti eigandi Tencent kemur ekki frá Kína. Árið 2001 festi suður-afríska fjölmiðlafyrirtækið Naspers kaup á 46,5% hlut í fyrirtækinu fyrir um 32 milljónir dollara en óhætt er að segja að sú fjárfesting hafi borið ríkulegan ávöxt en Naspers á nú um 31% hlut í Tencent.

Samfélagsmiðill í eftirlitsríki

Í október árið 2010 hófst vinna við nýtt þróunarverkefni í rannsóknar- og þróunardeild Tencent-samsteypunnar sem fjallað var um hér á undan. Einungis þremur mánuðum seinna leit dagsins ljós appið Weixin sem fékk seinna nafnið WeChat og er í dag eitt vinsælasta snjallsímaforrit í heiminum.

WeChat er í dag stærsti samfélagsmiðill í Kína með yfir 1,1 milljarð virka notendur en til samanburðar er Facebook með um 2 milljarða notendur í heiminum öllum. WeChat er hins vegar miklu meira en bara samfélagsmiðill þó að samskiptavirkni þess sé helsti eiginleikinn. WeChat hefur verið lýst sem Facebook, Whatsapp, Google News, Tinder og Pinterest í einu og sama appinu. Fyrir utan það geta notendur sinnt netverslun, fjármálum og greiðslum og spilað leiki og þurfa því á margan hátt ekki á mörgum öðrum snjallsímaforritum að halda.

WeChat er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa notið góðs af því að flestir vestrænir samfélagsmiðlar eru bannaðir í Kína en fyrir utan að vera kallað „ofur appið“ hefur einnig verið talað um það sem hið kínverska Facebook. Líkt og með Facebook var WeChat í upphafi einfaldur samfélagsmiðill sem hefur svo aukið umsvif sín gríðarlega. Í lok árs 2012 voru notendur orðnir 160 milljónir talsins en á því ári var nafninu breytt úr Weixin í WeChat til að höfða betur til alþjóðamarkaðar en þess ber þó að geta að langflestir notendur eru kínverskir.

Ári seinna höfðu þeir ríflega tvöfaldast í 336 milljónir en sama ár var greiðsluþjónusta WeChat sett í loftið. Árið 2016 voru notendurnir orðnir 889 milljónir og ári seinna hafði þeim fjölgað um hundrað milljónir til viðbótar. Í lok þriðja ársfjórðungs 2019 voru virkir mánaðarlegir notendur orðnir 1.151 milljón talsins og höfðu því ríflega sjöfaldast frá lok árs 2012 og er í dag eitt vinsælasta snjallsímaforrit heims.

WeChat hefur hins vegar orðið fyrir töluverðri gagnrýni á síðustu árum enda er vinsælt samskiptaforrit og eftirlitsríki ekki góð blanda. Kínversk stjórnvöld hafa notað WeWork til að stunda eftirlit og ritskoðun með almenningi. Árið 2016 fékk Tencent, móðurfélag WeChat, núll stig af hundrað í skýrslu Amnesty International þar sem tæknifyrirtækjum var gefin einkunn fyrir hversu vel þeim hefði tekist að innleiða dulkóðun til að verja mannréttindi notenda sinna. Þrátt fyrir að það hafi ekki fengist fullkomlega staðfest þá virðist sem kínversk yfirvöld hafi aðgang að nær öllum gögnum um notendur WeChat og sem dæmi birtist myndskeið á Twitter á dögunum af manni sem var í haldi lögreglunnar fyrir þann saklausa glæp að hafa gert grín að lögreglunni í lokuðum hóp á samfélagsmiðlinum.

Þá hafa lönd á borð við Indland, Ástralíu, Taívan og Bandaríkin lýst því yfir að WeChat ógni mögulega þjóðaröryggi landanna af misjöfnum ástæðum. Í Indlandi hefur verið rætt um að banna WeChat vegna of mikillar söfnunar á persónuupplýsingum auk þess sem stjórnmálamenn í Taívan hafa lýst áhyggjum yfir því að eftirlit með persónulegum samskiptum ógni öryggi íbúa landsins.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út 30. desember.