Kínverski tölvuleikjarisinn Tencent er meðal þeirra sem nýverið fjárfestu í leikjaframleiðandanum Lockwood Publishing. Alls söfnuðust 25 milljónir dollara eða andvirði tæplega 3,2 milljarða króna.

Í hópi annarra fjárfesta að þessu sinni má nefna Novator, félag Björgólfs Thors Björgólfssonar, Davíð Helgason, stofnanda Unity, og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP, en þeir höfðu áður lagt fé í félagið á fyrri stigum.

Lockwood Publishing var stofnað af Haraldi Þóri Björnssyni og Joel Kemp árið 2009. Félagið einblíndi í upphafi á leiki fyrir PlayStation Home en það gekk ekki sem skyldi og árið 2015 þurfti það að draga saman seglin. Afráðið var að miða frekar á leiki fyrir snjallsíma og fjórði leikur framleiðandans, Avakin Life, hefur slegið í gegn og er nú með um 200 milljónir notenda, þar af spilar um þriðjungur leikinn reglulega. Tekjur félagsins í fyrra námu um átján milljónum punda.