Kínverska stórfyrirtækið Tencent hefur fest kaup á 10% hlut í útgáfufyrirtækinu Universal Music Group (UMG). Þetta kemur fram í frétt Reuters en þar segir að miðað við kaupverð hlutarins nemi heildarmarkaðsvirði UMG um 34 milljörðum dollara. Þá hefur Tencent kauprétt á 10% hlut til viðbótar á sama verði.

UMG er að stærstum hluta í eigu frönsku fjölmiðlasamsteypunnar Vivendi en fyrirtækið á meðal annars útgáfurétt af bæði tónlist Bítlanna, ABBA,Queen og Rihönnu. Með kaupunum ætlar Tencent að ná betri aðgangi að bandarískum tónlistarmarkaði á meðan kaupinn veita UMG tækifæri á að aukaumsvif sín í Asíu.

Sjá einnig: Tencent alltumlykjandi

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum er Tencent umsvifamesta tæknifyrirtæki í Kína. Tónlistarþjónusta fyrirtækisins er með um þrefalt fleiri notendur en Spotify en aftur á móti er notendur sem greiða fyrir þjónustuna mun færri en hjá sænska fyrirtækinu.