Kínverska fyrirtækið Tencent er eitt af tíu verðmætustu vörumerkjum heimsins. Fyrirtækið nær inn á lista BrandZ yfir verðmætustu vörumerkin, en venjulega er listinn uppfullur af bandarískum vörumerkjum og er það til marks um breytta tíma að kínverskt vörumerki slæðist inn á listann. Frá þessu greinir CNN .

Fyrirtækið Tencent er geysivinsælt í Kína, heimalandi sínu, og sérhæfir sig í smáforritum, netleikjum, og spjallforritum. Fyrirtækið er metið á 330 milljarða dollara, sem er meira en verðmætasti banki Bandaríkjanna, JPMorgan Chase. Tíu verðmætustu vörumerkin eru eftirfarandi:

1. Google : Bandaríska fyrirtækið hefur toppað listann sjö sinnum síðastliðin ellefu ár. Verðmæti vörumerkis fyrirtækisins er ríflega 245 milljarðar dollarar og hefur hækkað um 7% á milli ára.

2. Apple : Verðmæti vörumerkis Apple hefur hækkað um 3% milli ára og nemur nú 235 milljörðum dollara.

3. Microsoft : Verðmæti vörumerkis hækkar um 5% milli ára og er það að miklu leyti að þakka velgengi Microsoft Cloud. Verðmæti vörumerkisins Microsoft Nemur 143 milljörðum dollara.

4. Amazon : Verðmæti vörumerkis fyrirtækisins hefur hækkað gífurlega á síðastliðnum árum og hækkaði um 41% milli ára og er verðmæti þess nú metið 139 milljarða dollara. Gengi hlutabréfa Amazon hefur hækkað um 34% frá upphafi árs.

5. Facebook : Gengi Facebook hefur verið nokkuð stöðugt á lista BrandZ. Það hefur hækkað stöðugt á milli ára og nú hækkaði það um 27% og var metið á 130 milljarða dollara.

6. AT&T: Símafyrirtækið hefur verið með á listanum síðastliðin sjö ár og hækkaði um 65% á síðastliðnu ári og er nú metið á 115 milljarða. Fyrirtækið stefnir nú á yfirtöku á Time Warner, sem að gæti verið stærsta yfirtaka allra tíma.

7. Visa : Bandaríska fyrirtækið Visa þekkja flestir neytendur. Verðmæti vörumerkis fyrirtækisins hækkaði um 10% og er nú 111 milljarðar dollara. Fyrirtækið náði samningum við Costco á árinu sem að hjálpaði fyrirtækinu mjög.

8. Tencent : Kínverska fyrirtækið kemst inn á listann í fyrsta skipti, en verðmæti vörumerkisins hækkaði um 27% á milli ára og er nú metið á 108 milljarða. Forstjóri þess er „Pony“ Ma Huateng, einn ríkasti maður Kína.

9. IBM : Fyrirtækið hefur alltaf verið á listanum frá því að hann var gefinn fyrst út árið 2006. Verðmæti vörumerkis fyrirtækisins hækkaði um 18% á milli ára og er nú 102 milljarðar dollara.

10. McDonald's er eina fyrirtækið sem tengist ekki tækni. Að sögn greiningaraðila gengur fyrirtækinu nokkuð vel miðað við aðra skyndibitakeðjur.