*

föstudagur, 22. nóvember 2019
Erlent 6. júní 2017 09:56

Tencent meðal verðmætustu vörumerkja heims

Kínverska fyrirtækið Tencent er komið á lista yfir verðmætustu vörumerki heimsins. Á listanum eru fyrirtæki á borð við Google, Facebook og Apple.

Ritstjórn
„Pony“ Ma Huateng, forstjóri Tencent, væri hægt að kalla hinn kínverska Mark Zuckerberg.
epa

Kínverska fyrirtækið Tencent er eitt af tíu verðmætustu vörumerkjum heimsins. Fyrirtækið nær inn á lista BrandZ yfir verðmætustu vörumerkin, en venjulega er listinn uppfullur af bandarískum vörumerkjum og er það til marks um breytta tíma að kínverskt vörumerki slæðist inn á listann. Frá þessu greinir CNN.

Fyrirtækið Tencent er geysivinsælt í Kína, heimalandi sínu, og sérhæfir sig í smáforritum, netleikjum, og spjallforritum. Fyrirtækið er metið á 330 milljarða dollara, sem er meira en verðmætasti banki Bandaríkjanna, JPMorgan Chase. Tíu verðmætustu vörumerkin eru eftirfarandi: 

1. Google: Bandaríska fyrirtækið hefur toppað listann sjö sinnum síðastliðin ellefu ár. Verðmæti vörumerkis fyrirtækisins er ríflega 245 milljarðar dollarar og hefur hækkað um 7% á milli ára. 

2. Apple: Verðmæti vörumerkis Apple hefur hækkað um 3% milli ára og nemur nú 235 milljörðum dollara. 

3. Microsoft: Verðmæti vörumerkis hækkar um 5% milli ára og er það að miklu leyti að þakka velgengi Microsoft Cloud. Verðmæti vörumerkisins Microsoft Nemur 143 milljörðum dollara.

4. Amazon: Verðmæti vörumerkis fyrirtækisins hefur hækkað gífurlega á síðastliðnum árum og hækkaði um 41% milli ára og er verðmæti þess nú metið 139 milljarða dollara. Gengi hlutabréfa Amazon hefur hækkað um 34% frá upphafi árs. 

5. Facebook: Gengi Facebook hefur verið nokkuð stöðugt á lista BrandZ. Það hefur hækkað stöðugt á milli ára og nú hækkaði það um 27% og var metið á 130 milljarða dollara. 

6. AT&T: Símafyrirtækið hefur verið með á listanum síðastliðin sjö ár og hækkaði um 65% á síðastliðnu ári og er nú metið á 115 milljarða. Fyrirtækið stefnir nú á yfirtöku á Time Warner, sem að gæti verið stærsta yfirtaka allra tíma.

7. Visa: Bandaríska fyrirtækið Visa þekkja flestir neytendur. Verðmæti vörumerkis fyrirtækisins hækkaði um 10% og er nú 111 milljarðar dollara. Fyrirtækið náði samningum við Costco á árinu sem að hjálpaði fyrirtækinu mjög.

8. Tencent: Kínverska fyrirtækið kemst inn á listann í fyrsta skipti, en verðmæti vörumerkisins hækkaði um 27% á milli ára og er nú metið á 108 milljarða. Forstjóri þess er „Pony“ Ma Huateng, einn ríkasti maður Kína. 

9. IBM: Fyrirtækið hefur alltaf verið á listanum frá því að hann var gefinn fyrst út árið 2006. Verðmæti vörumerkis fyrirtækisins hækkaði um 18% á milli ára og er nú 102 milljarðar dollara. 

10. McDonald's er eina fyrirtækið sem tengist ekki tækni. Að sögn greiningaraðila gengur fyrirtækinu nokkuð vel miðað við aðra skyndibitakeðjur. 

Stikkorð: listi Tencent tíu verðmæti vörumerkja