Stærsta tónlistarveita Kína er nú sögð vera að undirbúa skráningu á markað og feta þannig í fótspor sænsku tónlistarveitunnar Spotify sem skráði sig nýlega á markað og var þá verðlagt á 29,5 milljarða dali.

Tencent Music gæti orðið verðlagt á yfir 25 milljarða dala við skráningu eða sem nemur 2.500 milljörðum króna. Tencent Music er í meirihlutaeigu kínverska tæknirisans Tencent Holdings sem m.a. heldur úti samskiptaforritinu WeChat sem er afar vinsælt þar í landi.

Tencent Music hefur vaxið hratt en á síðari hluta ársins 2017 var félagið metið á 12,5 milljarða dala þegar Spotify eignaðist 9% hlut í félaginu.

Um 700 milljónir nota Tencent Music í hverjum mánuði í gegnum tölvur og snjallsíma.