Á mánudag opnuðu Bandaríkin landamæri sín á nýjan leik fyrir ferðamenn, meðal annars frá Evrópu, það er þeirra sem hafa verið bólusettir. Um mikilvæg tímamót er að ræða í viðspyrnunni upp úr faraldrinum, ekki aðeins vegna aukins ferðafrelsis bólusettra Íslendinga sem nú geta ferðast vestur um haf, heldur öðru fremur vegna þeirra tækifæra sem felast í ferðalögum frá meginlandinu vestur um haf.

Hið síðarnefnda skiptir íslenska þjóðarbúið miklu máli í ljósi þess að Keflavíkurflugvöllur hefur þjónað sem tengimiðstöð milli Evrópu og Norður-Ameríku undanfarin ár og hafa lokuð landamæri Bandaríkjanna raskað því jafnvægi, líkt og farþegatölur Isavia bera með sér.

Ef skyggnst er í baksýnisspegilinn aftur til ársins 2018, sem var stærsta ferðamannaár í sögu Íslands, var farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli tæpar 9,9 milljónir yfir árið. Þar af voru svokallaðir áningar- og tengifarþegar, það er farþegar sem fljúga áfram á aðra áfangastaði með örstuttri viðkomu á Keflavíkurflugvelli, 39,4% af heildarfarþegafjölda.

Árið 2020 olli nýja kórónuveiran miklu uppnámi, svo ekki sé fastara að orði kveðið, og víðast hvar voru teknar upp harðar takmarkanir á landamærum. Það árið hrundi heildarfarþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli niður í tæpar 1,4 milljónir og þar af var aðeins 12,1% áningar- og tengifarþegar.

Nú í ár hefur bólusetning víða gengið vel og hvert landið á fætur öðru hefur opnað landamæri sín fyrir bólusettum ferðamönnum annarra landa. Um síðustu mánaðamót var heildarfarþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli kominn upp í tæpar 1,7 milljónir á árinu en þar af voru áningar- og tengifarþegar aðeins 15,2% og er hið lága hlutfall það sem af er ári og á síðasta ári ef til vill skýrasti vitnisburðurinn um mikilvægi Bandaríkjanna fyrir tengimarkaðinn.

Nú þegar Bandaríkin hafa opnað landamærin fyrir bólusettum farþegum opnast því tveir markaðir um Keflavíkurflugvöll, annars vegar Íslendingar á leið til og frá Bandaríkjunum og hins vegar tengimarkaðurinn við Evrópu. Að öðru óbreyttu ætti opnunin að auka nýtingarhlutföll flugfélaga sem nýta Ísland sem tengimiðstöð og eðli máls samkvæmt fagna forstjórar íslensku flugfélaganna, Icelandair og Play, þessari þróun mála.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .