Tveir kostir eru að mati Seðlabankans fýsilegir þegar taka á ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag peningastefnunnar. Fjallað var um skýrslu bankans um peningastefnuna eftir höft í málstofu í Háskóla Íslands nýlega.

Af þessum tveimur kostum ber fyrst að nefna fastgengisstefnu, þar sem gengi krónu er fastbundið gengi annars gjaldmiðis og er þá öðru fremur horft til evru eða ERM II fyrirkomulagsins og þá jafnvel með einhvers konar vikmörkum.

Í skýrslunni segir að þegar metið sé gagnvart hvaða gjaldmiðli heppilegast sé að festa gengi innlends gjaldmiðils þurfi almennt að líta til þriggja hluta. „Í fyrsta lagi er æskilegt að peningastefna þess ríkis sem gengið er fest við sé traust. Með því er trúverðugleiki peningastefnu kjarnaríkisins að hluta fluttur inn og stuðlar að stöðugleika innanlands. [...] einnig [er] æskilegt að innlend hagsveifla sé áþekk hinni erlendu.Það er síðan nátengt umfangi viðskipta við viðkomandi ríki, þar sem hagsveiflan og framleiðsluuppbygging eru jafnan nátengd í ríkjum sem eiga mikil viðskipti sín á milli.“

Eins og fram kemur í skýrslunni er nær helmingur milliríkjaviðskipta Íslendinga við aðildarríki Myntbandalags Evrópu (EMU) eða lönd sem tengjast evrunni fastgengisfyrirkomulagi, þ.m.t. Danmörk sem er aðili að áðurnefndu ERM II-fyrirkomulagi. Verði leið fastgengisstefnu gagnvart einstökum gjaldmiðli farin hnígi því „... veigamikil efnahagsleg rök að því að festa gengið við evru, frekar en t.d. Bandaríkjadal, breskt pund eða þá norrænu gjaldmiðla sem fljóta sjálfstætt. Þessu til viðbótar skapast sérstök vandamál ef tengja á gengi krónunnar við t.d. Bandaríkjadal sem jafnan er talinn öruggt skjól fjárfesta í kreppum og hefur því tilhneigingu til að hækka þegar alþjóðlegur efnahagssamdráttur ríður yfir, í stað þess að lækka sem væri líklega hagstæðara fyrir Ísland við slíkar aðstæður. Að sama skapi gætu skapast vandamál við að tengja gengi krónunnar við gjaldmiðla olíuútflutningsríkja eins og Noregs,“ segir í skýrslunni, og er það með öðrum orðum heppilegasta lausnin að tengja gengi krónu með einhverjum hætti við evru að mati Seðlabankans, fari svo að leið fastgengis verði fyrir valinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.