RentMate er íslenskt sprotafyrirtæki sem hjálpar erlendum skiptinemum að koma sér þaki yfir höfuðið. Fyrirtækið var stofnað af fjórum frumkvöðlum sem stunda verkfræði- og viðskiptafræðinám við Háskóla Reykjavíkur.

Þetta eru þeir Eyþór Logi Þorsteinsson, Sigurður Davíð Stefánsson, Jóhann Ívar Björnsson og Óli Pétur Friðþjófsson. Þegar þeir hófu háskólanám, sáu þeir að Ísland væri ekki einungis vinsæll áfangastaður fyrir ferðamenn.

Á hverri önn sækja um þúsund erlendir nemendur íslenska háskóla. Samkvæmt Eyþóri Loga eiga þessir nemendur þó sífellt erfiðara með að finna sér húsnæði.

„Útlendingar fá engar stúdenta¬ íbúðir og hafa oft verið að hoppa inn á gistiheimili. Þar sem vertíðin er farin að teygja sig fram í október, verður það sífellt erfiðara að komast inn á gistiheimilin.“ Til þess að koma til móts við alla þessa erlendu nemendur, ákváðu þeir að setja upp vefsíðu, sem tengir nema og leigusala.

Lausninni þeirra mætti í raun líkja við Airbnb, en í stað þess að leigja heila íbúð í senn, geta nemendurnir bókað pláss í íbúð. Fyrirkomulagið einfaldar margt fyrir báða aðila að sögn Eyþórs.

„Ef þú ert leigusali með t.d. fjögur herbergi, þá hefðir þú áður fyrr þurft að finna hóp til að fylla íbúðina og svo að rukka hvern einasta krakka. Vefsíðan sér um að taka við greiðslunum og sameinar greiðslurnar til húseigendanna.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .