Í nýútkominni skýrslu Seðlabanka Evrópu um sýndarfé á bálkakeðjum sem innleysa má fyrir hefðbundna þjóðargjaldmiðla (e. stablecoin), segir að slík útgáfa falli undir lög um útgáfu rafeyris (e. e-money). Sveinn Valfells, framkvæmdastjóri og einn stofnenda íslenska fjártæknifyrirtækisins Monerium, segir þessa túlkun seðlabankans mikið fagnaðarefni, enda renni hún frekari stoðum undir þá sannfæringu fyrirtækisins að það hafi staðið rétt að vinnu í kringum það að tengja hefðbundna gjaldmiðla inn á bálkakeðjur (e. blockchain).

„Í júní í fyrra varð Monerium fyrsta fyrirtæki í Evrópu til að öðlast leyfi til útgáfu rafeyris á bálkakeðjur, þegar Fjármálaeftirlitið (FME) veitti félaginu leyfi til að gefa út rafeyri á bálkakeðjur. Eftir því sem við best vitum erum við enn eina evrópska fyrirtækið með slíkt leyfi. Skömmu eftir að starfsleyfið var í höfn kom út skýrsla frá Fjármálaeftirliti Bretlands (FCA) sem studdi þessa leyfisveitingu með því að segja að útgáfa hefðbundinna gjaldmiðla á bálkakeðjur falli undir rafeyri og nú hefur Seðlabanki Evrópu tekið í sama streng. Það er mjög jákvætt fyrir okkur að Seðlabanki Evrópu staðfesti þessa túlkun á regluverkinu," segir Sveinn.

„Monerium er brautryðjandi í notkun bálkakeðja við millifærslu lögeyris eins og dollars, evru og krónu. Við erum að hagnýta viðurkennt leyfi í nýjum tilgangi. Okkar forsenda var alltaf sú að tenging þjóðargjaldmiðla á bálkakeðjur væri leyfisskyld starfsemi en nokkur fyrirtæki hafa í gegnum tíðina reynt þetta án tilskilinna leyfa, t.d. Libra, sem Facebook kynnti í fyrra. Við töldum hins vegar augljóst að það að tengja hefðbundna gjaldmiðla inn á bálkakeðju væri leyfisskyld starfsemi eins og Seðlabanki Evrópu hefur nú staðfest," bætir hann við.

Rafeyrir ekki sama og rafmynt

Að sögn Sveins hefur Monerium unnið að því að tengja hefðbundna gjaldmiðla inn á bálkakeðjur frá árinu 2016.

„Bálkakeðjur eru dreifðir gagnagrunnar sem auðvelda aðgengi og sameiginleg not á upplýsingum. Þetta er í raun eins og lag ofan á internetið til viðbótar við þær fjarskipta- og samfélagsmiðlaþjónustur sem við höfum aðgang að í dag. Bálkakeðjur gera fólki kleift að deila stöðu stafrænna eigna, eins og t.d. peninga, með traustum hætti. Hingað til hafa bálkakeðjur aðallega verið notaðar til þess að kaupa og selja sýndarfé en það er hægt að koma mörgum eignarflokkum yfir á bálkakeðjur og auðvelda þannig viðskipti á netinu - milli mismunandi fyrirtækja, greina og yfir landamæri milli mismunandi gjaldmiðla."

Sveinn segir að munurinn á rafeyri og rafmyntum felist í því að rafeyrir sé innleysanlegur fyrir venjulega peninga, til dæmis krónur, á meðan rafmyntir séu sýndarfé sem er ekki innleysanlegt. „Monerium er að heimfæra venjulega peninga yfir á bálkakeðju eins og þegar hefur verið gert með kort. Hins vegar eru rafmyntir, líkt og Bitcoin, óinnleysanlegt sýndarfé sem sveiflast í verði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .