Smásöluverslanir Bretlands eru í mikilli óvissu eftir hrun Kaupþings. Kaupþing átti hlut í ýmsum verslanakeðjum, aðrar voru í viðskiptum hjá bankanum og auk þess bakkaði Kaupþing Baug upp. Á þessum orðum hefst umfjöllun Guardian um tengsl bankans við smásölugeirann í Bretlandi.

Baugur hefur neitað sögusögnum um að verið sé að selja hluta Baugsveldisins, þ. á m. verslanakeðjurnar Iceland og Hamleys. Einnig hafa gengið sögur um að ein af tískuvöruverslunum Baugs, sem á sín bankaviðskipti hjá Kaupþingi, gæti orðið uppiskroppa með lausafé og gæti þar með ekki borgað starfsfólki laun.

Kaupþing á hlut í Booker, Somerfield, Phase Eight, Mosaic og Jane Norman. Mosaic rekur 2.100 verslanir og hjá tískufatakeðjunni starfa 13.000 manns. Kaupþing á 20% hlut í Mosaic á meðan Baugur á 49%.

Talsmaður Kaupþings sagði óvíst hvort verslanakeðjurnar væru í eigu breska hluta Kaupþings eða þess íslenska. Ef breski armur bankans á hlutina mun skiptastjóri selja þá.

Fleiri smásöluverslanir eru í vandræðum vegna tengsla sinna við Ísland. T.d. hafði íþróttavörukeðjan JJB Sports 20 milljóna punda brúarlán hjá Kaupþing og tískukeðjan Hardy Amies var tekin til gjaldþrotaskipta í vikunni eftir að íslenska verðbréfafyrirtækið Arev neitaði keðjunni um neyðarlán.

Guardian greindi frá þessu.