Halla Tómasdóttir framkvæmdarsjóri Viðskiptaráðs segir í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag að aukið mikilvægi tengsla við umheiminn hafi komið í ljós þegar vegið var að ímynd Íslands á alþjóðlegum vettvangi nú nýlega með fremur neikvæðri umfjöllun.

Halla telur eina ástæðu þess að umfjöllunin komst á það stig sem raun bar vitni vera þá að Ísland var ekki nægilega tengt við umheiminn þegar útrás íslenskra fyrirtækja hófst. "Það var hreinlega bil á milli þess sem við vorum að gera og þess sem aðrir upplifðu eða vissu að við værum að gera. Og það gerðist vegna þess að við vorum ekki nógu dugleg að miðla upplýsingum um á alþjóðlegum vettvangi", segir Halla.

"Við höfum verið að kynna skýrslu Mishkin og Tryggva í New York og London, þar sem við höfum boðið fulltrúum frá erlendum fjármálafyrirtækjum. Skýrslan hefur ljáð þessari umræðu akademíska vigt og aukið trú þessara aðila á Íslandi til muna. Skýrslan er samt enginn hvítþvottur og í henni eru til að mynda ábendingar um það sem betur má fara. Bankarnir þurfa til dæmis að auka upplýsingaflæði og gegnsæi og stjórnvöld þurfa að íhuga ákveðnar aðgerðir. En skýrslan sýnir fram á það með skýrum hætti að við erum ekki vanþróað hagkerfi. Erlendir aðilar og greiningardeildir voru farnar að taka hlutina úr samhengi og líkja Íslandi við Tyrkland og Tæland. Skýrslan setur hlutina aftur í samhengi og sýnir fram á að stoðir efnahagslífsins eru traustar" segir Halla.

(Sjá meira í Viðskiptablaðinu í dag)