Ráðstefnan Tengslanet IV - Völd til kvenna, hefst í dag í Háskólanum á Bifröst. Þetta er í fjórða sinn sem ráðstefnan er haldin en yfirskrift hennar í ár er „Konur og réttlæti".

Stofnandi hennar og stjórnandi frá upphafi er dr. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Herdís segir hugmyndina í upphafi hafa verið að skapa nýja leið í jafnréttisbaráttunni. Tengslanetið sé vettvangur fyrir þverfaglega samvinnu kvenna af öllum sviðum samfélagsins og þar séu málin rædd opinskátt en um leið hafin yfir allt pólitískt dægurþras.

„Tengslanet er orðin stærsta ráðstefnan í íslensku viðskiptalífi. Hana sækja konur á öllum aldri. Á meðal þátttakenda eru konur úr viðskiptalífinu, lögfræðingar, kennarar, leikarar, bændur og húsmæður svo eitthvað sé nefnt."

Tveir erlendir fyrirlesarar halda erindi á morgun. Það eru þær Judith Resnik, prófessor við Yale háskólann í Bandaríkjunum. Hún var m.a. útnefnd af bandarísku lögmannasamtökunum sem fremsti fræðimaður á sviði lögfræði ársins 2008.

Hinn erlendi fyrirlesarinn er Maud de Boer Buquicchio, annar framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

Herdís segir þær báðar hafa hrifist mjög af hugmyndinni um Tengslanetið og séu mjög spennar yfir komu sinni til landsins.

Á morgun munu, auk erlendu fyrirlesaranna, fjölmargir innlendir fyrirlesarar taka til máls á 4 pallborðum. Viðskiptablaðið mun flytja fréttir frá ráðstefnunni allan morgundaginn á vef blaðsins, www.vb.is .

_____________________________________

Nánar er fjallað um Tengslanet IV og Herdísi Þorgeirsdóttur í viðtali við hana í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .