Davíð Örn Símonarson hefur verið á fullu í frumkvöðlageiranum frá unga aldri og hefur meðal annars dvalið langdvölum í Silicon Valley í Kaliforníu. Hann segir það gífurlega mikilvægt að huga að tengslaneti sínu.

Líklega er frumkvöðlasenan í Silicon Valley sú allra þekktasta í heiminum. Þar eru höfuðstöðvar stórfyrirtækja á borð við Facebook, Apple og Google. Davíð Örn Símonarson, forstjóri WatchBox, hefur verið viðriðinn nýsköpunarbransann bæði hér heima og erlendis í háa herrans tíð segir að í grunninn sé frumkvöðlasenan í Silicon Valley þokkalega góð fyrir íslensk fyrirtæki.

Það er starfandi norrænt frumkvöðlasetur í Silicon Valley, í miðri Palo Alto, sem heitir Nordic Innovation House. Þar er fullt af fyrirtækjum, seinast þegar ég vissi voru 170 fyrirtæki skráð þar frá Norðurlöndunum. Þau eru ekki öll með aðstöðu þar allt árið um kring, en þau koma þangað og nýta sér að- stöðuna þegar þau eru í Silicon Valley. Við til dæmis erum ekki þar allt árið um kring. Við erum kannski sex mánuði á ári þar. Þá höfum við aðstöðu þar sem við getum nýtt okkur. Það er rosalega mikilvægt að vera hluti af stærra eða meira, einhvers konar netverki,“ segir Davíð Örn.

Síli í hafsjó

Davíð Örn segist finna mikinn mun á því þegar hann fór út árið 2014 og svo aftur á móti í dag. Þá var verkefnið sem hann vann að ekki hluti af neinu netverki. „Það var mjög erfitt að vera einn á báti þarna í stórri borg. Manni leið eins og maður væri þokkalega stór fiskur í lítilli tjörn heima, en þegar maður kom út áttaði maður sig á því að maður væri bara síli í hafsjó,“ segir hann.

„Þarna úti er endalaust af frumkvöðlafyrirtækjum að gera ótrúlega flotta hluti og berjast um sömu viðskiptavinina og sama fjármagnið,“ bætir hann við. Nú segir hann að lífið sé allt öðruvísi þegar fyrirtækið er komið inn í þetta „norræna umhverfi“ og er komið með fleiri tengingar.

WatchBox: Snjallforrit sem skapar samheldni

Upphaflega hélt fjögurra manna hópur út fyrri hluta árs 2014, með verkefnið Blendin, sem var samfélagsiðmiðill í appformi, sem tengir saman vini í skemmtanalífinu. Það verkefni gekk ekki eins og skyldi, en í kjölfarið stofnaði sami hópur fyrirtækið WatchBox, en reyndar hafði gefið út tölvuleik í millitíðinni sem varð vinsæll í Norðurlöndunum og var sá tölvuleikur spilaður af tveimur milljónum á fyrstu tveimur mánuðunum.

„Núna erum við með WatchBox. Nema hvað, fyrir sirka ári síðan tókum við inn fjármagn frá Frumtaki, fjárfestingarsjóði heima, og höfum verið að einbeita okkur að fyrirtækjum og höfum verið að selja þessa lausn inn til fyrirtækja. Þetta er hugbúnaðarlausn sem býr til meiri samheldni meðal starfsmanna og gerir vinnustaði skemmtilegri. Það virkar mjög vel, þetta er í raun mjög einfalt snjallforrit þar sem hægt er að deila myndum og myndböndum af því sem gerist í vinnunni, þegar eitthvað skemmtilegt gerist, þegar einhver kemur með köku, þegar einhver deild fagnar sigri í einhverjum leik eða eitthvað gerist fyrir utan vinnuna á borð við ráðstefnur og annað. Svo komum við inn með sérstaka WatchBox skjái sem settir eru inn í matsalinn eða kaffistofuna þannig að maður geti séð þessar myndir og myndbönd rúlla og þá er hægt að endurupplifa þessar góðu minningar.