United Silicon í Helguvík hefur samið við alþjóðlega fyrirtækið Tenova Pyromet um byggingu og uppsetningu á 32 megavatta ljósbogaofni fyrir kísilverksmiðju félagsins í Helguvík.

Þetta verður fyrsti ofn sinnar tegundar á Íslandi. Framkvæmdir við byggingu fyrsta áfanga kílisverksmiðju United Silicon í Helguvík eru nú hefjast af fullum krafti en jarðvegsframkvæmdir eru þegar hafnar á svæðinu. Verksmiðjuhúsið verður 41 metra hátt og um 5.000 fermetrar að stærð. Þar inni verður ljósbogaofninn sem framleiðir kísilmálminn. Áætlað er að framleiðsla hefjist á vormánuðum árið 2016 og nemi 21.300 tonnum á ári í fyrsta áfanga.

„Það er búið að tryggja raforku fyrir þennan fyrsta ofn en það eru 35 megavött. Miðað við fjóra ofna sem við stefnum að þarf kísilverksmiðjan 140 megavött.  Við erum búnir að sækja um og fá starfsleyfi fyrir þrjá ofna í viðbót. Verksmiðjan er hönnuð með þessa stækkun í huga. Miðað við fjóra ofna verður framleiðslugetan 85.000 tonn á ári. Við stefnum að því að ná þessari framleiðslu á tíu árum,“ segir Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon.

Verkefnið er afar umfangsmikið og mun á uppbyggingartíma skapa allt að 300 störf og um 60 störf eftir að verksmiðjan hefur starfsemi samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Útlitsteikning af kísilverksmiðjunni: