*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 5. nóvember 2011 12:08

Teris gæti misst 40% tekna sinna

Líkur á að Byr hætti í viðskiptum.

Ritstjórn
Gísli Heimisson
Aðsend mynd

Við yfirtöku Íslandsbanka á Byr kann svo að fara að Teris missi um það bil 40% af tekjum sínum og ljóst að þá þyrfti að grípa til sáraukafulls niðurskurðar enn eina ferðina. Fyrir rétt liðlega tveimur árum störfuðu um 140 manns hjá Teris, sem áður hét Tölvumiðstöð sparisjóðanna, en vegna hrunsins og falls Icebank og sparisjóða hefur starfsmönnum fækkað mikið. Tölurnar tala sínu máli: árið 2009 störfuðu um 140 manns hjá Teris en nú starfa þar rétt tæplega 70 manns. Byr á 40% hlut í Teris og um 40% af rekstrartekjum Teris koma frá Byr. Ef fækka þyrfti starfsmönnumn í takt við veltusamdráttinn, sem yrði ef Byr hætti í viðskiptum, þyrfti Teris væntanlega að segja upp hátt í 30 manns til viðbótar.

Gísli Heimisson, stjórnarformaður Teris, segir að það sé ekki gefið að Íslandsbanki hætti viðskiptum við félagið þótt einsýnt sé að umfang viðskipta í núverandi mynd muni dragast verulega saman enda reki bankinn að stórum hluta sambærilegar lausnir og Teris.

Leiðrétting: Þau mistök urðu í Viðskiptablaðinu 3. nóvember sl. að birt var mynd af Brynjólfi Baldurssyni við nafn Gísla Heimissonar þegar fjallað var um Teris. Rétt mynd af Gísla birtist hér að ofan.

Nánar má lesa um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Byr Teris