Fyrirtækið Teris, sem sérhæfir sig í upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki, hefur hlotið gullvottun sem samstarfsaðili Microsoft að því er segir í tilynningu frá Teris.

Gullvottunin er veitt fyrir þróun hugbúnaðarlausna sem eru samhæfðar helstu lausnum frá Microsoft og mikla sérfræðiþekkingu starfsmanna Teris á hugbúnaðarlausnum Microsoft. Með þessum áfanga er Teris komið í hóp þeirra samstarfsaðila Microsoft sem hvað fremst standa í hugbúnaðarþróun samkvæmt þeim kröfum sem Microsoft gerir til samstarfsaðila sinna.   Í fréttinni kemur fram að Teris er stærsta upplýsingatæknifyrirtækið á Íslandi sem starfar eingöngu við hugbúnaðarþróun og þjónustu fyrir fjármálafyrirtæki. Fyrirtækið hefur þróað ýmsar sérlausnir fyrir viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi og þjónustar flest íslensk fjármálafyrirtæki á einn eða annan hátt.

Gullvottunin er veitt samkvæmt alþjóðlegum stöðlum Microsoft um sérþekkingu starfsmanna og reynslu á sviði hugbúnaðarþróunar og nýtist upplýsingatæknifyrirtækjum á borð við Teris sérstaklega við markaðssetningu á vörum þeirra erlendis.   „Við byggjum starfsemi okkar á alþjóðlega viðurkenndum gæðastöðlum og því skiptir miklu fyrir okkur sem upplýsingatæknifyrirtæki að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til gullvottaðra samstarfsaðila Microsoft. Þróun fjármálalausna krefst jafnframt mikillar sérfræðiþekkingar og er gullvottun Microsoft enn eitt dæmið um þá fjölbreyttu þekkingu sem við búum yfir hjá Teris. Til viðbótar byggja flestir viðskiptavinir okkar upplýsingatæknikerfi sín að miklu leyti upp á Microsoft-lausnum og við þurfum að sjálfsögðu að taka mið af því við okkar vinnu,“ segir Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Teris í tilkynningu.   „Það er afar ánægjulegt að bjóða Teris velkomið í hóp okkar helstu samstarfsaðila. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum sýnt að það er með öflugustu upplýsingatæknifyrirtækjum á Íslandi og hefur náð góðum árangri á sínu sviði. Við hjá Microsoft Íslandi bindum miklar vonir við áframhaldandi samstarf við Teris og trúum því að gullvottun Microsoft muni verða fyrirtækinu  mikilvæg við bæði þróunarstarf og markaðssetningu í framtíðinni,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.