Teris og Valitor hafa gert með sér samkomulag um að Teris hýsi og reki nýtt vildarkerfi Valitor. Vildarkerfið, sem byggir á frönsku vildarkerfalausninni XLS sem Teris hefur smíðað viðbætur við og staðfært fyrir íslenskar aðstæður, mun gera Valitor kleift að auka þjónustu sína við bæði útgefendur greiðslukorta og söluaðila. Jafnframt munu fyrirtækin nýta íslenska hugbúnaðinn LAX (Loyalty Analyze Extreme), sem Teris hefur þróað frá grunni, til að efla enn frekar notagildi vildarkerfisins fyrir viðskiptavini Valitor.

Í tilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að LAX sé markaðsgreiningarlausn sem byggir á vildar- og kortagögnum og með henni fá viðskiptavinir Valitor, kortaútgefendur  og samstarfskaupmenn klæðskerasniðnar markaðsupplýsingar sem nýtast við alla markaðssetningu. LAX er mikilvæg viðbót við XLS vildarkerfið þar sem að í LAX er hægt að greina árangur vildar- og markaðsherferða nánast jafnóðum og bregðast skjótt við með nýjum herferðum.

Þar sem Teris hefur reynslu, sérþekkingu og tækjabúnað til að reka og hýsa XLS- og LAX-kerfin á öruggan hátt var farin sú leið að Teris hýsi kerfin og reki þau fyrir Valitor. Samstarfið er því gott dæmi um hvernig hægt er að efla þjónustu í fjármálatengdri starfsemi án þess að ráðast í kostnaðarsöm kaup á búnaði.

Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Teris segir það spennandi að fá tækifæri til að vinna með Valitor að nýtingu XLS og LAX. „Valitor er mjög umfangsmikið fyrirtæki á sínu sviði með mikinn fjölda viðskiptavina og einmitt við slíkar aðstæður nýtast öflug vildarkerfi hvað best til að auðvelda fyrirtækinu að sérsníða sína þjónustu að þörfum ólíkra viðskiptavina. Það er góð viðurkenning fyrir tæknifólk okkar sem hefur unnið við að staðfæra XLS fyrir íslenska markaðinn og þróa LAX frá grunni að Valitor vilji nýta lausnir og þjónustu Teris og um leið áskorun fyrir okkur að starfa með Valitor í framtíðinni.“