Breska stórmarkaðakeðjan Tesco hyggst fara í samkeppni við viðskiptabanka þar í landi og bjóða upp á innlánareikninga og húsnæðislán. Tesco hefur nú þegar rekið fjármálastarfsemi í áratug í samstarfi við Royal Bank of Scotland. Telegraph segir frá þessu í dag.

Tesco státar í dag af meira en sjö milljónum viðskiptavina. Í dag býður stórmarkaðarisinn upp á tryggingar, greiðslukort og ýmis konar reikninga.

Talsmaður fyrirtækisins segir að á endanum muni þessi viðskiptaþróun leiða til þess að Tesco reki fullburða banka. Sérstaklega verði litið til þess að veita húsnæðislán.

Forstjóri fyrirtækisins, Sir Terry Leahy, segir að ætlunin sé að fá skerf af húsnæðislánageiranum í Bretlandi sem sé alls 20 milljarða punda virði.

Gengi bréfa Tesco hreyfðist lítið við þessi tíðindi í dag.