Breska stórmarkaðakeðjan Tesco hefur boðið 293 milljónir Bandaríkja dali í Plus Discount, keðju lágvöruverðsverslana í Tékklandi sem samanstendur af 144 verslunum. Í Vegvísi Landsbankans er haft eftir tékkneska blaðinu Mlada fronta Dnes að Tesco hafi átt hæsta boðið í tékknesku keðjuna, en seljandinn er þýska keðjan Tengelmann. Fyrir rekur Tesco 93 búðir í Tékklandi en með kaupunum verður félagið markaðsleiðandi með 2,71 milljarða Bandaríkjadali í sölu á ársgrundvelli.

Í Vegvísinum segir að Tesco sé stærsti viðskiptavinur Bakkavarar en í júlí síðastliðnum keypti Bakkavör 51% hlut í tékkneska matvælaframleiðandanum Heli Food Fresh og hyggst kaupa eftirstandandi hlutafé í apríl árið 2010. Heli Food Fresh selur vörur sínar í Tékklandi, Ungverjalandi, Póllandi og Slóvakíu, en Bakkavör sér kaupin fyrst og fremst sem grundvöll til að þróa viðskiptin við Tesco í Austur-Evrópu. Búist er við að markaðurinn fyrir tilbúna rétti í Austur-Evrópu vaxi hratt á næstu árum og ætti Bakkavör að njóta góðs af sterkari stöðu Tesco á þessum slóðum. Bakkavör mun að öllum líkindum jafnframt fylgja Tesco til Bandaríkjanna áður en langt um líður.