Breska matvöruverslunin Tesco hefur samið við hluthafa um greiðslu 12 milljón dala, eða um 1,6 milljarð króna, í dómsmáli sem höfðað var í New York. Dómstóll í New York þarf að samþykkja samninginn áður en hann verður formlega staðfestur en framkvæmdastjóri Tesco Dave Lewis hefur lýst því yfir að jafnvel þótt þeir greiði bæturnar þá sé félagið ekki að viðurkenna sekt sína í málinu.

Málið var höfðað gegn matvöruversluninni og fyrrum stjórnendum hennar af hluthöfum sem höfðu keypt handhafaskírteini sem skráð voru á markað í Bandaríkjunum, en handhafaskírteinin nema um 2% af skráðum hlutabréfum Tesco.

Tesco viðurkenndi í september 2014 að hafa gefið upp of háar tekjur á fyrri helming ársins 2014 sem nemur 263 milljón breskra punda, eða um 52,5 milljarð króna. Auk bótanna sem Tesco hefur nú samþykkt að greiða til þeirra sem keyptu handhafaskírteinin í Bandaríkjunum er annað mál fyrir dómstól í Ohio og Fjármálaeftirlit Bretlands hefur hafið rannsókn á bókhaldsmálum Tesco, en gert er ráð fyrir að niðurstöðu sé að vænta bráðlega.

Hlutabréf í Tesco hafa lækkað um 33% síðan í apríl sl.