Tesco, stærsta matvörukeðja Bretlands, hefur tilkynnt að fyrirtækið muni hefja verslanarekstur í Bandaríkjunum innan tveggja ára, segir greiningardeild Landsbankans.

Fyrirtækið stefnir á að opna rúmlega 100 til 150 verslanir í fyrstu. Tesco rekur nú um 2.500 verslanir í Bretlandi og 12 öðrum löndum í Evrópu og Asíu.

Opnun verslana í Bandaríkjunum hefur verið á stefnuskrá Tesco í nokkurn tíma. Tesco skoðaði það að kaupa verslanakeðjuna Albertson's, en af því varð ekki, segir greiningardeildin.

Tesco stefnir á að opna fyrstu verslanir sínar á vesturströndinni og munu þær vera í anda Tesco Express, sem eru nokkurs konar hraðbúðir.

Þessar verslanir munu ekki vera í beinni samkeppni við Wal-Mart, Kroger, Albertson's, Safeway og aðrar stærri matvöruverslanir heldur frekar við minni matvöruverslanir. Sem dæmi má nefna 7-Eleven.

Fyrirtækið hyggst skapa sér sérstöðu með meira vöruúrvali, sérstaklega á ferskum vörum, en aðrar verslanir í þessum stærðarflokki.

Þó Tesco muni ekki fara í beina samkeppni, að svo stöddu, við stærri verslanakeðjur í Bandaríkjunum er ekki ólíklegt að þeir séu að velta því fyrir sér. Tesco rekur nú þegar fjórar tegundir matvöruverslana á heimamarkaði sínum, segir greiningardeildin.

Allt frá ofangreindum Tesco Express verslunum til risa stórmarkaða sem bjóða upp á föt, snyrtivörur, raftæki, heimilistæki og garðáhöld ásamt matvöru. Það er því líklegt að Wal-Mart og hinar stærri verslanakeðjurnar fylgist náðið með framgangi Tesco á komandi árum

Ólíklegt er þó að Tesco selji bensín líkt og flestar matvöruverslanir í þessum stærðarflokki í Bandaríkjunum.

Sala Tesco á síðasta ári var 65.000 m.USD samanborið við Wal-Mart sem var með sölu upp á 312.000 m.USD en Wal-Mart rekur um helmingi fleiri verslanir en Tesco.