Gengi hlutabréfa Tesla hafði lækkað um 6% við opnun markaða vestanhafs í dag eftir að niðurstöður skoðanakönnunar Elons Musk lágu fyrir um helgina. Bréfin hafa þó rétt nokkuð úr kútnum eftir því sem liðið hefur á daginn og þegar þetta er skrifað er gengi þeirra um 2,9% lægra en við lokun markaða fyrir helgi.

Elon spurði í könnun á Twitter hvort hann ætti að selja 10% hlutabréfa sinna í Tesla og lofaði að hlíta niðurstöðunni. Um 3,5 milljónir Twitter-notenda tóku þátt í könnuninni og 58% þeirra kusu með sölu bréfanna.

Tilefni könnunar Elons eru hugmyndir demókrata um að leggja eignaskatt á milljarðamæringa, þar sem meðal annars hefur verið bent á að frestun skattgreiðslu af uppsöfnuðum arði hlutabréfaeignar sé ein leið til skattahagræðingar (e. tax avoidance), enda er skattur ekki greiddur af hagnaði fyrr en við sölu bréfanna.