Gengi rafbílaframleiðandans Tesla heldur áfram að hækka og stóðu bréf félagsins í 2.002 dollara við lokun markaða í gær. Það er einungis tveir og hálfur mánuður síðan að gengi félagsins fór upp fyrir 1.000 dollara í fyrsta sinn.

Tesla er í dag verðmætasti bílaframleiðandi í heiminum en markaðsvirði félagsins er um 373 milljarðar dollarar. Rafbílaframleiðandinn er því orðinn verðmætari en Walmart sem hefur markaðsvirði upp á 370 milljarða dollara. Markaðsvirði Toyota, næst stærsta bílaframleiðandans, er í dag um 218,8 milljarðar dollarar.

Rafbílaframleiðandinn hækkaði um 6,6% í gær en engin augljós ástæða virðist vera fyrir frekari hækkunum. Félagið tilkynnti fyrir viku síðan að hlutabréfum þess verði skipt í fimm hluta þann 31. ágúst næstkomandi. Sú framkvæmd ætti þó ekki að hafa nein bein áhrif á markaðsvirði.

Sjá einnig: Musk orðinn fjórði ríkasti maður heims

Elon Musk, stofnandi Tesla , tísti einnig fyrir rúmri viku að fyrirtækið væri að þróa nýja „skepnu“ gagnavinnslukerfi fyrir tölvustudda þjálfun í sjálfkeyrandi bílum. Musk sagði þessa tækni vera risastökk fyrir sjálfkeyrandi bíla þar sem um endurhönnun væri að ræða fremur en litla framþróun.