Stofnandi og framkvæmdastjóri rafbílafyrirtækisins Tesla Motors, Elon Musk, skrifaði framkvæmdastjóra sólarorkufyrirtækisins SolarCity kauptilboðsbréf í gær. Framkvæmdastjóri SolarCity heitir Lyndon Rive og er frændi Musk. Þá er Musk einnig stærsti hluthafi beggja fyrirtækjanna auk þss sem hann er stjórnarformaður þeirra beggja.

Í bréfinu býðst Musk til þess að kaupa fyrirtækið á verðinu 26,5-28,5 Bandaríkjadalir á hvern hlut sem er 21-30% hærra verð en gengi bréfa fyrirtækisins var á hlutabréfamarkaði við lokun í gær. Í kjölfar þess að tilboð Musk var birt opinberlega féll gengi hlutabréfa Tesla á eftirmarkaði um 12% en gengi bréfa SolarCity hækkaði á sama tíma um 15%.

„Við höfum hugsað um þetta og skeggrætt í mörg ár,” sagði Musk í viðtali við blaðamenn í gær. „Tímasetningin virðist vera rétt núna.” Þetta segir hann á sama tíma og Tesla eykur við umsvif sín í rafhlöðu- og raforkugeiranum svo um munar. Óvíst er hvort kaupin ganga í gegn en Musk mun ekki kjósa um það hvort þau verði samþykkt á stjórnarfundum.