*

mánudagur, 13. júlí 2020
Erlent 2. janúar 2019 17:50

Tesla byrjar árið með verðlækkun

Bæði verð bréfa rafbílaframleiðandans, sem og bílarnir sjálfir lækkuðu í virði á fyrsta viðskiptadegi ársins.

Ritstjórn
Tesla Model 3 bíllinn er ætlað að verða fjöldaframleidd almenningseign.
european pressphoto agency

Hlutabréf í Tesla lækkuðu um yfir 9% á mörkuðum í Bandaríkjunum fyrst í morgun eftir að ljóst var að rafbílaframleiðandinn afhenti færri Model 3 fólksbíla en vænst hafði verið á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Einnig hafði áhrif að bílaframleiðandinn hafði lækkað verð til kaupanda í Bandaríkjunum vegna minnkandi svokallaðra grænna skattaafslátta í landinu.

Forstjórinn Elon Musk er undir mikilli pressu að standa við loforð sín um koma framleiðslunni á bílnum á góðan skrið, en fjöldaframleiðsla þessarar tilteknu bíltegundar Tesla er talin nauðsynleg til að koma fyrirtækinu á réttan kjöl fjárhagslega að því er Reuters greinir frá.

En verðlækkunin, sem nemur 2.000 dölum, eða sem samsvarar 234 þúsund krónum, hafði áhrif á hlutabréfaverðið sem hefur nú lækkað um 7,75%, en í byrjun dags nam lækkunin yfir 9%. Fæst hvert bréf félagsins nú á 307,15 Bandaríkjadali, eða sem samsvarar 35.912 krónum.

Í viðamiklum skattalækkunum sem Bandaríkjaþing, undir meirihluta Repúblikana, samþykkti seint á síðasta ári, er ákvæði sem lækkar verð á fyrstu 200 þúsund rafbílunum sem framleiðandi framleiðir, en lækkar afsláttinn svo um helming á hverjum sex mánuðum upp frá því.

Verðlækkun Tesla á bílum fyrirtækisins tók gildi í dag, en hún nær til áðurnefnds Model 3 fólksbílanna, auk Model S og Model X sem eru lúxusútgáfur. Í heildina afhenti Tesla 63.150 Model 3 bíla á síðustu þremur mánuðum ársins, sem er minna en greinendur höfðu metið að gæti náð 64.900 bílum. Fyrirtækið afhenti þó 90.700 bíla þegar allt er tekið til á ársfjórðungnum, sem er aukning frá þriðja ársfjórðungi, en minna en spáð hafði verið.

Stikkorð: Tesla Elon Musk rafbílar skattalækkanir